Afreksmaður á Ólympíuleikum lést af völdum veirunnar

Donato Sabia er látinn.
Donato Sabia er látinn. Reuters

Ítalinn Donato Sabia sem komst í úrslit í 800 metra hlaupi á tvennum Ólympíuleikum í röð er látinn af völdum kórónuveirunnar, 56 ára að aldri.

Sabia lést á sjúkrahúsi í Potenza á Suður-Ítalíu en Ólympíunefnd Ítalíu skýrði frá láti hans og sagði að hann hefði verið á gjörgæslu um nokkurt skeið.

Sabia varð fimmti í 800 m hlaupi á ÓL í Los Angeles árið 1984 og sjöundi í Seúl fjórum árum síðar. Hann varð Evrópumeistari innanhúss í greininni árið 1984.

Samkvæmt Ólympíunefnd Ítalíu er hann fyrsti íþróttamaðurinn sem komist hefur í úrslit á Ólympíuleikum sem andast af völdum farsóttarinnar. Fram kemur að faðir Sabia hafi einnig látist úr sóttinni nokkrum dögum áður.

mbl.is