Brady opnar sig um félagsskiptin

Tom Brady var í tvo áratugi hjá New England Patriots.
Tom Brady var í tvo áratugi hjá New England Patriots. AFP

Tom Brady, sigursælasti leikstjórnandi í sögu NFL-deildarinnar í ruðningi, gekk á dögunum í raðir Tampa Bay Buccaneers frá New Englad Patriots, þar sem hann hafði spilað allan ferilinn. 

Hjá Patriots spilaði hann alla tíð undir stjórn Bills Belichicks. Hafa einhverjir efast um að Brady hefði náð jafn langt ef ekki hefði verið fyrir Belichick. Brady svaraði því fullum hálsi í XM's-útvarpsþættinum sem Howard Stern hefur umsjón með. 

„Það er ömurlegt að fólk skuli segja það. Ég get ekki unnið hans vinnu og hann ekki mína vinnu. Hann gerði mig að betri leikmanni og ég gerði hann eflaust að betri þjálfara,“ sagði Brady. Leikstjórnandinn og Belichick áttu ekki alltaf skap saman, en Brady segir það ekki ástæðuna fyrir félagsskiptunum. 

„Það var kominn tími á að prófa eitthvað nýtt, ég veit ekki hvað ég get sagt meira. Ég afrekaði allt sem hægt var að afreka í tvo áratugi hjá stórkostlegu félagi,“ sagði Brady.

Umhverfið er allt annað hjá Buccaneers, sem hefur ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2007. „Það er stór áskorun en ég er sannfærður um að tíminn minn þar verður virkilega góður. Ég hlakka til að læra á nýtt lið,“ sagði Brady. 

Bra­dy er 42 ára gam­all og hef­ur unnið Of­ur­skál­ar­leik­inn, Super Bowl, sex sinn­um með New Eng­land Pat­riots og fjór­um sinn­um verið val­inn besti leikmaður­inn í úr­slita­leikn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert