Gamla ljósmyndin: Skrifaði nýjan kafla í Atlanta

Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa eftir myndum af íslensku íþróttafólki úr safni blaðsins. 

Myndin sem nú er birt er frá sögulegum viðburði í íþróttasögu Íslands þegar Íslendingar áttu í fyrsta skipti keppanda í fimleikakeppni Ólympíuleikanna. 

Á myndinni býr Rúnar Alexandersson sig undir keppni á tvíslá á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996. Myndin er tekin af hinum kunna ljósmyndara, Kristni Ingvarssyni, sem árum saman stóð vaktina fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Rúnar keppti fyrstur Íslendinga í fimleikum á Ólympíuleikum þegar hann keppti í Atlanta 21. og 22. júlí árið 1996.

„Já, ég er ánægður. Þetta var svipað og ég bjóst við,“ sagði Rúnar í samtali við Skapta Hallgrímsson í Morgunblaðinu að frumrauninni lokinni en Rúnar var aðeins 19 ára gamall í Atlanta og fékk sína hæstu einkunn á bogahesti á alþjóðlegu móti fram að þessu: 9,537. 

Rúnar fæddist árið 1977 í Rússlandi en fluttist til Íslands á unglingsárum og keppti fyrir Gerplu.

Rúnar keppti á þrennum Ólympíuleikum, 1996, í Sydney árið 2000 og í Aþenu árið 2004.

Irina Sazonova varð síðar fyrsta konan til að keppa fyrir Ísland í fimleikum á Ólympíuleikum þegar hún keppti í Ríó 2016. Þar keppti einnig Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sem á íslenska foreldra en keppir fyrir Holland. 

Rúnar náði besta árangri íslensks fimleikamanns á Ólympíuleikum frá upphafi þegar hann varð í 7. sæti á bogahesti á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.

Rúnar varð þriðji í kjöri íþróttamanns ársins það ár.

Hann komst einnig í úrslit á einstökum áhöldum bæði á heimsmeistara- og Evrópumótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert