Kraftaverk að ég sé ekki fjöldamorðingi

Lance Armstrong.
Lance Armstrong. AFP

Hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong játaði árið 2013 að hafa notað ólög­leg lyf er hann vann alls sjö Tour de France-keppn­ir á ár­un­um 1999 til 2005. Þótti hann einn allra besti íþróttamaður sögunnar, áður en lyfjahneykslið eyðilagði afrek og arfleifð Bandaríkjamannsins.  

ESPN mun frumsýna heimildamynd um Armstrong á næstu dögum þar sem m.a. er rætt við manninn sjálfan. Ræðir hann æskuár sín, sem reyndust honum afar erfið. „Það er kraftaverk að ég sé ekki fjöldamorðingi,“ segir Armstrong m.a. í myndinni. 

Var móðir hans, Linda Armstrong Kelly, aðeins 17 ára gömul þegar Lance fæddist og tók pabbinn ekki þátt í að ala strákinn upp. Þegar Lance var ungur kynntist hún Terry Armstrong, sem tók þátt í uppeldinu og varð stjúppabbi Lance. 

„Lance hefði aldrei orðið meistari, ef ég hefði ekki alið hann upp eins og villidýr,“ segir Terry m.a. í myndinni. „Hann lúbarði mig á hverjum degi,“ minnist Lance Armstrong sjálfur.

Er Lance Armstrong gagnrýndur harðlega í grein á The Guardian fyrir myndina. Virðist ekki sjá eftir neinu, þrátt fyrir að hafa svindlað í áraraðir og orðið gríðarlega efnaður á þeim tíma. Er hann m.a. kallaður rotinn að innan. Ólst hann upp við að brjóta reglur og vera sama um tilfinningar annarra og hefur ekkert breyst í þeim efnum að mati Aaron Timms, blaðamanns breska dagblaðsins. 

Stiklu fyrir myndina má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is