Meirihluti leikmanna Barcelona á sölulista

Lionel Messi er væntanlega ekki á leið frá Barcelona.
Lionel Messi er væntanlega ekki á leið frá Barcelona. AFP

Fjárhagsvandræði Katalóníurisans í spænsku úrvalsdeildinni, Barcelona, eru til umræðu í grein á vef spænska dagblaðsins Marca í dag og fullyrt er að aðeins örfáir leikmenn liðsins séu öruggir um að vera þar áfram á næstu leiktíð.

Clement Lenglet, miðvörðurinn, er sá nýjasti til þess að tjá sig um þá óvissu sem ríkir í herbúðum Barcelona.

„Knattspyrnumenn vita sjaldan hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég vonast til þess að vera hjá Barcelona á næstu leiktíð,“ sagði Lenglet við frönsku úrvarpsstöðina RMC.

„Þetta fer eftir því hvað gerist í leikmannaglugganum. Þetta er sérstakur tími fyrir mörg félög og þetta snertir alla, en ég vonast til þess að verða hér áfram,“ sagði Lenglet.

Í frétt Marca segir raunar að aðeins Marc-Andre ter Stegen, Gerard Pique, Frenkie de Jong, Antoine Griezmann, Lionel Messi og Ansu Fatu geti verið öruggir um sæti sitt á næstu leiktíð. Allir aðrir eru á sölulista eða verða boðnir til skiptanna sem hluti af kaupverði nýrra leikmanna.

Ég hefði kosið það að félagið hefði gefið það út að ég yrði áfram, bara til þess að stöðva alla þessa orðróma,“ sagði Ivan Rakitic við Cadena Cope nýlega.

Króatinn vill vera áfram í Katalóníu en er einn þeirra sem hafa opinberlega gagnrýnt hvernig félagið hefur tekið á málunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert