Ríkisstjóri New York opnar fyrir íþróttaliðunum

Andrew Cuomo ræddi við fréttamenn á Jones-ströndinni á Long Island …
Andrew Cuomo ræddi við fréttamenn á Jones-ströndinni á Long Island í kvöld. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, tilkynnti í kvöld að atvinnuíþróttalið í ríkinu mættu frá og með deginum í dag hefja æfingar á sínum svæðum eftir meira en tveggja mánaða lokun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Cuomo sagði þetta á fréttamannafundi á Long Island en New York hefur orðið verst úti allra ríkja Bandaríkjanna í faraldrinum þar sem meira en 360 þúsund hafa greinst með smit og tæplega 29 þúsund hafa látist. Faraldurinn er hins vegar í rénun.

„Ég  tel að íþróttirnar geti snúðið aftur án fólks á leikvöngunum og í höllunum. Drífið í því!“ sagði Cuomo í ávarpi sínu.

Mörg af þekktustu íþróttaliðum Bandaríkjanna hafa aðsetur í New York, svo sem körfuboltaliðin New York Knicks og Brooklyn Nets í NBA-deild karla og New York Liberty í WNBA-deild kvenna, íshokkíliðin Rangers, Islanders og Sabres, hafnaboltaliðin Yankees og Mets og ruðningsliðin Buffalo Bills, Giants og Jets, og fótboltaliðin New York Red Bulls og New York City, en með síðastnefnda liðinu leikur Selfyssingurinn Guðmundur  Þórarinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert