Íslandsmet sett í Kaplakrika

Vigdís Jónsdóttir
Vigdís Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er sleggjukastarinn Vigdís Jónsdóttir ryðguð eftir þær hömlur sem fylgdu kórónuveirunni með tilheyrandi áhrifum á æfingar afreksíþróttafólks. Hún setti í dag Íslandsmet í sleggjukasti. 

Vigdís keppti í dag á vormóti Fjölnis í Kaplakrika og þeytti sleggjunni 62,38 metra og bætti árangur sinn um hálfan metra eða svo. Í júlí í fyrra kastaði hún 61,80 m á móti í Kaplakrika. 

Rúv greindi frá þessu á vef sínum í kvöld og þar er haft eftir Vigdísi að hún hafi þrívegis kastað lengra en 61,80 í kastseríu sinni í dag. 

Eldra Íslandsmetið átti Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem var 62,16 metrar og sett í Borgarnesi í maí í fyrra. 

Vigdís er fædd árið 1996 og keppir fyrir FH. Hún hefur á sínum ferli sett níu sinnum Íslandsmet í greininni og var því að endurheimta metið í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert