Þægileg staða fyrir litla Ísland

Örvar Ólafsson og Andri Stefánsson með Ólympíukyndilinn.
Örvar Ólafsson og Andri Stefánsson með Ólympíukyndilinn. Ljósmynd/ÍSÍ

Frestun Ólympíuleikana í Tókýó til ársins 2021 hefur gríðarlegan kostnað í för með sér og er alveg ljóst að leikunum verður ekki aftur frestað, heldur aflýst, ef kórónuveirufaraldurinn tekur aðra stefnu en nú er búist við. Ísland og afreksfólk okkar í íþróttum standa þó nokkuð vel miðað við aðstæður og er verið að teikna upp allar mögulegar sviðsmyndir fyrir leikana á næsta ári. Morgunblaðið ræddi við Andra Stefánsson, sviðsstjóra Afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ, um gang mála.

„Við og margar Evrópuþjóðir erum að komast hraðar í gegnum þetta en margir aðrir. Óvissan hvílir dálítið á öðrum heimsálfum og hvort allir geti tekið þátt þegar þar að kemur,“ sagði Andri og kom inn á að til dæmis í Tókýó væri nú þegar byrjað að aflétta mörgum af þeim takmörkunum sem settar voru vegna veirunnar. Þá er auðvitað ekki endilega nóg að horfa bara til tiltekinna þjóða, enda ekki óalgengt að íþróttamenn í fremsta flokki frá minna þróaðri löndum séu búsettir annars staðar.

Hefur minnst áhrif á Ísland

Andri er einn þeirra sem koma að undirbúningi og skipulagi ÍSÍ í kringum alþjóðleg mót, en hann segir ástandið helst hafa áhrif á íþróttafólkið sjálft. „Þetta hefur í raun minnst áhrif á okkur og fyrst og fremst áhrif á íþróttafólkið sem er að reyna að taka þátt á þessum mótum. Fyrir Ólympíuleikana er búið að byggja ólympíuþorp fyrir alla þá keppendur sem komast inn, þannig að við erum ekki að bóka hótel og slíkt fyrir hugsanlega keppendur. Við göngum bara inn í þann pakka sem er tilbúinn. Flugmál eru auðvitað í óvissu en ég veit aldrei fyrr en nokkuð seint hverjir eru að tryggja sig inn á leikana hvort eð er. Slík mál fara alltaf seint af stað,“ segir Andri og bætir við að staðan geti verið talsvert snúnari fyrir stærri þjóðir sem taki mun fleiri keppendur á leikana.

„Fyrir stórþjóðir sem vita að þær eru að fara á leikana með 500 manns er þetta kannski önnur staða. Þar er jafnvel búið að panta mjög mikið í kringum þetta og þær lenda í vandræðum núna. Fyrir litla Ísland er staðan miklu þægilegri og við verðum fyrir minna raski.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert