Gamla ljósmyndin: Kveðjukossinn

Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðrún Arnardóttir, úr Ármanni, náði þeim magnaða árangri að komast í úrslit í 400 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu árið 2000. Er hún eini Íslendingurinn sem komist hefur í úrslit í hlaupi á Ólympíuleikum frá upphafi. 

Guðrún vann sinn riðil í undanrásum nokkuð örugglega og hafnaði í 5. sæti í sinum riðli í undanúrslitum. Í úrslitahlaupinu hljóp hún á 2. braut og hafnaði í 7. sæti. Vegalengdina hljóp hún þá á 54,63 sekúndum. 

Guðrún tók þá ákvörðun að hætta keppni að Ólympíuleikunum loknum og var því á meðal þeirra bestu í heimi í 400 metra grindahlaupi þegar hún lét staðar numið. Þá ákvörðun hafði hún raunar tekið löngu áður en að leikunum kom. Hennar síðasta hlaup var á Ólympíuleikvanginum fyrir framan rúmlega 100 þúsund manns. 

Á myndinni þakkar Guðrún fyrir stuðninginn skömmu eftir að hún kom í mark í kveðjuhlaupinu og sendir kveðjukoss. Myndina tók Sverrir Vilhelmsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í rúma tvo áratugi og birtist hún fyrst í Morgunblaðinu 28. september árið 2000. 

„Ég er sátt við mitt verk og get hætt afar sæl með mína frammistöðu á leikunum,“ sagði Guðrún í samtali við Ívar Benediktsson, blaðamann Morgunblaðsins, á leikunum í Sydney. 

Guðrún keppti einnig á leikunum í Atlanta í Bandaríkjunum árið 1996 og hafnaði þá í 10. sæti í 400 metra grindahlaupinu. 

Í lok árs 2000 hafnaði Guðrún í 3. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins en hún varð fjórum sinnum á meðal fjögurra efstu í kjörinu á fimm árum, 1996 - 2000. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert