Fékk ekki forskot í vöggugjöf

Wilma Rudolph fagnar sigri í 100 metra hlaupinu í Róm.
Wilma Rudolph fagnar sigri í 100 metra hlaupinu í Róm. Ljósmynd/AFP

Íþróttafólk lagði á 20. öldinni lóð sín á vogarskálarnar í réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum með árangri sínum og framgöngu í keppnum. Ekki síst ef viðkomandi nældi í gullverðlaun fyrir hönd Bandaríkjanna í keppni við þjóðir heimsins á Ólympíuleikum eins og til dæmis Jesse Owens gerði í Berlín 1936. 

Fyrir sextíu árum varð Wilma Rudolph þekkt fyrirmynd fyrir bæði svarta í íþróttum og íþróttakonur með frammistöðu sinni á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960. Þar náði hún sögulegum árangri en saga Rudolph er merkileg fyrir marga hluta sakir en á barnsaldri benti fátt til þess að hún gæti orðið spretthlaupari á heimsmælikvarða á fullorðinsárum. Er þá ekki tekið djúpt í árinni. 

Wilma Glodean fæddist hinn 23. júní árið 1940 í Saint Bethlehem í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum. Henni lá á og kom í heiminn fyrir áætlaðan tíma. Vóg hún 2 kg í fyrstu vigtun og glímdi við ýmsa krankleika fyrstu æviárin. Fékk hún lungnabólgu, skarlatssótt og mænusótt. Lamaðist hún um tíma af völdum mænusóttar. Náði sér að mestu en skorti þó styrk í vinstri fætinum. Gekk hún með spelku á vinstri fæti þar til hún varð 12 ára og spretthlaup voru því ekki inni í myndinni eins og fyrr segir. Minnir þetta með spelkuna á vissan hátt á skáldskaparpersónuna Forrest Gump. 

Vikulegar rútuferðir til Nashville

Foreldrar hennar, Ed og Blanche, reyndu þrátt fyrir erfiðar aðstæður að útvega Wilmu litlu læknisþjónustu eins og hægt var. Ed hafði mörgum hnöppum að hneppa en hann eignaðist tuttugu og tvö börn í tveimur hjónaböndum. Þótt greinarhöfundur geti oft verið klaufalegur þá er hér ekki um innsláttarvillu að ræða í þetta skiptið. 

Fjölskyldan hafði flust til Clarksville í Tennessee. Fyrir utan kröpp kjör þá gerði kynþáttamisrétti stöðuna enn erfiðari en ekki var sjálfsagt fyrir svarta að fá læknisþjónustu í Clarksville á fimmta áratugnum. 80 kílómetrum frá Clarksville, í höfuðborg ríkisins, Nashville, gátu svartir fengið heilbrigðisþjónustu á spítala sem í dag heitir Nashville General Hospital.

Í þessari kunnu tónlistarborg fékk Wilma Rudolph viðeigandi aðstoð við að endurheimta mátt í veikari fætinum. Til þess þurftu hún og móðir hennar að ferðast vikulega með rútu til Nashville, og gerðu í tvö ár, en Wilma var í kringum 10 ára aldurinn þegar ferlið hófst. Fjölskyldan nuddaði hana auk þess daglega til að hjálpa til við bataferlið samkvæmt læknisráði. Á heimilinu voru margar hendur. 

Raðaði niður körfunum

Þegar líkamsburðirnir og hreyfigetan leyfðu fór Wilma að stunda körfuknattleik í skólanum en það hafði eldri systir hennar, Yvonne, einnig gert. Svo hratt sé farið yfir sögu þá keppti hún í körfunni þegar komið var í menntaskóla, high school, en þá bættust einnig við frjálsar íþróttir hjá henni.

Á menntaskólaárunum var Wilma Rudolph, sem áður glímdi við máttleysi í fæti, orðin eldfljót á körfuboltavellinum og skoraði 803 stig eitt keppnistímabilið og setti þar stigamet í kvennadeildum menntaskólakörfuboltans. Hún var auk þess hávaxin eða 180 cm og sjaldnast skemmir það fyrir í körfunni. 

Wilma Rudolph hleypur síðasta sprettinn og vinnur til gullverðlauna á …
Wilma Rudolph hleypur síðasta sprettinn og vinnur til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Róm í 4x100 metra boðhlaupi. Ljósmynd/AFP

Útsendari frá Tennessee State University, Ed Temple, kom auga á Wilmu Rudolph þegar hún var 14 ára sem varð til þess að hún fékk skólastyrk gegn því að keppa fyrir skólann í háskólaíþróttunum NCAA. En það gerðist fjórum árum síðar þegar hún hafði lokið menntaskólagöngu. Temple gaf henni þó færi á að æfa reglulega með skólaliðinu næstu árin þótt hún væri ekki orðin nægilega gömul til að sækja skólann. Wilma fór tveimur árum síðar í æfingabúðir hjá bandaríska landsliðinu fyrir Ólympíuleikana í Melbourne 1956 en okkur Íslendingum leiðist ekki að minnast á þá leika.

Wilmu Rudolph tókst að vinna sér sæti í bandaríska landsliðinu á úrtökumótinu í Seattle og keppti á leikunum 1956 en hún var yngst í bandaríska ólympíuhópnum. Þar vann hún til verðlauna rétt eins og Vilhjálmur Einarsson en hún fékk bronsverðlaun með bandarísku sveitinni í 4x100 metra boðhlaupi. Hún komst ekki í úrslit í 200 metra hlaupi en þátttakan og reynslan kom sér vafalaust vel þegar hún keppti í Róm fjórum árum síðar. 

Sprettharðasta kona heims

Í millitíðinni keppti hún fyrir Tennessee State í NCAA og hafði því öðlast talsverða keppnisreynslu þótt enn væri hún einungis tvítug. Á leikunum í Róm sprakk Wilma Rudolph út með látum og vann til þrennra gullverðlauna. Aftur var hún í sveit Bandaríkjanna sem sigraði í 4x100 metra hlaupi en í Róm sigraði hún einnig í 100 metra og 200 metra hlaupi. 

Wilma Rudolph fyrst í mark eins og svo oft.
Wilma Rudolph fyrst í mark eins og svo oft. Ljósmynd/Reuters

200 metrana vann hún á 24 sekúndum og 100 metrana á 11 sekúndum sléttum sem gefur góða mynd af því hversu öflug Wilma Rudolph var á hlaupabrautinni. Og aðeins tvítug. Í fjölmiðlum var talað um að óhugsandi hafi verið talið, áður en að leikunum kom, að kona gæti hlaupið 100 metrana svo hratt. Var hún kölluð sprettharðasta kona heims eftir leikana og full ástæða til. Afreki hennar fylgdu einnig ýmis gælunöfn í fjölmiðlum. Var hún kölluð fellibylurinn af Bandaríkjamönnum, svarta gasellan af Ítölum og svarta perlan af Frökkum. 

Afrek Wilmu Rudolph var sögulegt því hún var fyrst bandarískra kvenna til að vinna fleiri en tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikum. Hún var ein af stjörnum leikanna ásamt ekki ómerkari íþróttamönnum en Cassius Clay (síðar Muhammad Ali) og Oscari Robertson. Faðir hennar lifði til að sjá hana vinna ólympíugull en lést ári síðar. 

Viðmót bæjarstjórans breyttist

Bandaríkjamenn kunna að taka á móti sínu fólki þegar þau gera það gott á Ólympíuleikum. Heimabær hennar, Clarksville, sló upp hátíðahöldum 4. október, til að fagna afrekum hennar í Róm og þúsundir manna fylgdust með skrúðgöngu þegar Wilma kom í bæinn. Hún sneri heim um mánuði eftir leikana þar sem bandaríska íþróttafólkið keppti víðar í Evrópu. Svona til að nýta ferðina.

Wilma Rudolph setti fram þá kröfu að svartir yrðu velkomnir við hátíðahöldin og varð sú raunin en þótti langt frá því sjálfsagt mál. Hún lýsti því síðar að bæjarstjórinn hafi leikið á als oddi, faðmað hana og kysst, en hún kannaðist ekki við að fram að því hefði hann svo mikið sem tekið í höndina á svörtum manni. 

Afrek Wilmu Rudolph voru glæsileg en ferillinn varð ekki langur. Hún hélt áfram keppni árið 1961 en þegar hún var aðeins 22 ára gömul ákvað hún að láta staðar numið. Eftir henni var haft að hún hafi viljað að fólk myndi eftir sér á toppnum en ekki þegar færi að halla undan fæti. 

Ýmsar vegtyllur

Wilma Rudolph varð eftir leikana í Róm þekkt víða um heim. Hér á Íslandi má sjá greinar um hana frá þeim tíma í Morgunblaðinu, Tímanum, Vísi, Alþýðublaðinu, Þjóðviljanum, Vikunni, Æskunni og Valsblaðinu svo eitthvað sé nefnt. 

Með frammistöðu sinni og framgöngu er hún talin hafa hjálpað til við að ryðja brautina fyrir svarta í íþróttum, en einnig konur, því lengi voru þau viðhorf ríkjandi víða að konur ættu ekki að vera að vasast í afreksíþróttum. Hún var kjörin íþróttakona ársins hjá AP-fréttastofunni árið 1961 og var valin í frægðarhöll bandaríska ólympíusambandsins. Þá heitir frjálsíþróttaðstaða Tennessee State í höfuðið á henni. 

John F. Kennedy og Wilma Rudolph stinga saman nefjum í …
John F. Kennedy og Wilma Rudolph stinga saman nefjum í Hvíta húsinu. Ljósmynd/AFP

Meðan á velgengninni stóð var Wilma Rudolph hin ánægðasta með vinsældir sínar í Bandaríkjunum. Síðar fór hún hins vegar að láta í sér heyra varðandi kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum og sendi frá sér ævisögu árið 1977 sem vakti mikla athygli enda árangur hennar ótrúlegur í ljósi þess hve líkamsburðir hennar voru takmarkaðir í æsku. Einnig var gerð leikin sjónvarpsmynd um ævi Rudolph hið sama ár. 

Sjúkdómar hættu ekki að herja á Wilmu Rudolph og krabbamein felldi hana þegar hún var einungis 54 ára gömul en hún fékk heilaæxli. Móðir hennar hafði þá látist fyrr sama ár. Wilma Rudolph lét eftir sig tvær dætur og tvo syni frá tveimur hjónaböndum og átta barnabörn.  

mbl.is