Ein sú efnilegasta látin 16 ára að aldri

Luce Douady var aðeins 16 ára þegar hún lést.
Luce Douady var aðeins 16 ára þegar hún lést. AFP

Ein efnilegasta klifurkona heims, Luce Douady, er látin aðeins 16 ára að aldri eftir slys í frönsku ölpunum. Douady var talin gríðarlega líkleg til að vera valin í franska klifurliðið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári þar sem keppt verður í klifri í fyrsta sinn.

Douady varð heimsmeistari ungmenna í klifri á Ítalíu á síðasta ári, aðeins 15 ára gömul. Hún var að klifra í frönsku ölpunum með vinum sínum um helgina þegar hún féll um 150 metra og lést samstundis. Franska klifursambandið sagði frá andláti hennar á heimasíðu sinni.

„Luce var ung íþróttakona og hluti af franska klifurliðinu, hún var ein sú efnilegasta og frábær keppniskona,“ segir meðal annars í tilkynningu sambandsins. „Það er með mikilli sorg sem við færum ykkur fregnir af andláti hennar.“

Douady var talin líkleg til að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum, sem upprunalega áttu að fara fram í sumar, en hafa nú verið færðir til næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert