Bætti heimsmetið eftir að hafa æft í sex fermetra geymslu

Júlí­an J.K. Jó­hanns­son fagnar eftir að hafa lyft 409 kílóum …
Júlí­an J.K. Jó­hanns­son fagnar eftir að hafa lyft 409 kílóum í Fagralundi í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Júlí­an J.K. Jó­hanns­son bætti eigið heims­met í rétt­stöðulyftu í +120 kg flokki á Íslands­mót­inu í rétt­stöðulyftu sem fram fór í Fagra­lundi í Kópa­vogi í dag. Júlí­an lyfti 409 kíló­um og bætti því metið um þrjú og hálft kíló. Hann var að bæta metið í fjórða sinn, þó að vísu muni þessi lyfta í dag ekki vera skráð opinberlega.

„Þetta er í raun fjórða lyftan sem ég bæti metið en í raun verður þetta ekki skráð opinberlega þar sem mótið sem slíkt var ekki inni á mótaskrá alþjóðasambandsins, þótt þetta sé yfir mínu heimsmeti,“ sagði Júlían í samtali við mbl.is í dag.

„Reglurnar eru bara þannig að þetta verður að vera mót á vegum sambandsins. Þessi innanlandsmót telja aldrei en þetta er engu að síður ótrúlega jákvætt, enda veit maður ekkert hvort það verða einhver alþjóðleg mót á næstunni.“

Bættur árangur þrátt fyrir að hafa æft í kjallaranum

Hann er engu að síður ótrúlega ánægður með árangurinn í dag, sér í lagi eftir erfiða undanfarna mánuði vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta hefur auðvitað komið við mig eins og aðra og gjörbylt öllum mínum áætlunum. Ég flutti allar mínar æfingar í kjallarann heima í þrjá mánuði. Það virðist ekki hafa komið að sök miðað við þetta. Ég bæti árangur minn þrátt fyrir að hafa hæft í sex fermetra geymslu, það á ekki að vera hægt!“

Hann stefnir á að taka þátt á heimsmeistaramótinu í nóvember sem fram fer í Noregi en það stendur til að halda það. Þá stefnir hann enn ótrauður á að vinna sér sæti á heimsleikunum í Bandaríkjunum sem hafa verið færðir til 2022.

„Heimsmeistaramótið á að vera haldið í nóvember og er enn eina alþjóðlega mótið á dagskrá. Ég mun æfa eins og það verði haldið og svo tökum við bara því sem gerist.

Það er gaman að koma út úr þessu kórónuástandi svona og ég vona að það sé til marks um að við munum öll koma út úr þessu ástandi sterkari,“ sagði Júlían að lokum og er vongóður um að geta bætt metið enn frekar í framtíðinni.

Júlían slær hér heimsmetið í Fagralundi í Kópavogi í dag.
Júlían slær hér heimsmetið í Fagralundi í Kópavogi í dag. Ljósmynd/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert