Arftaki Brady fundinn

Cam Newton er kominn til New England Patriots.
Cam Newton er kominn til New England Patriots. AFP

Leikstjórnandinn Cam Newton er að ganga til liðs við New England Patriots í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi en það var CBS Sport sem greindi fyrst frá þessu. Newton kemur til Patriots frá Carolina Panthers þar sem hann hefur leikið frá árinu 2011.

Hann hefur lítið spilað, undanfarin tvö tímabil, vegna meiðsla en Newton er orðinn 31 árs gamall. Patrios misstu leikstjórnanda sinn í sumar, Tom Brady, til Tampa Bay Buccaneers en Brady, sem er 42 ára gamall, er sigursælasti leikstjórnandi í sögu deildarinnar.

Newton var valinn verðmætasti leikmaður NFL-deildarinnar tímabilið 2015-16 en Patriots hafa sex sinnum orðið NFL-meistarar, fyrst árið 2001 og síðast árið 2018. Allir meistaratitlar liðsins hafa komið í stjóratíð Bill Belichick sem hefur stýrt liðinu frá því árið 2000.

mbl.is