Ekki til skoðunar að fresta mótinu

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Ekki er til skoðunar að fresta Íslandsmóti kvenna og karla í knattspyrnu. Fjöldi leikmanna í báðum deildum er í sóttkví og nokkrir smitaðir. 

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að nú sé unnið að því að finna nýjan tíma fyrir þá leiki sem hefur verið frestað.

„Við vinnum bara að því og skoðum hvaða leiðir eru færar,“ segir Klara. 

Smit hafa greinst hjá leik­mönn­um í kvennaliði Breiðabliks og karlaliði Stjörn­unn­ar og af þeim sök­um er búið að fresta nokkr­um leikj­um á Íslands­mót­inu þar sem liðin hafa farið í sótt­kví, ásamt kvennaliði KR sem var and­stæðing­ur Breiðabliks skömmu áður en smitin komu upp. Þá kom í fyrradag upp smit hjá kvennaliði Fylk­is.

Leikmönnum allra liða í úrvalsdeild kvenna og karla ásamt starfsfólki, 2. flokki viðkomandi félaga og starfsfólki íþróttamannvirkja þeirra hefur verið boðið að fara í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Klara segir að reynt verði að haga nýrri leikjaröðun þannig að þau lið sem hafa þurft að fara í sóttkví fái tækifæri til þess að koma saman og æfa áður en þau hefja keppni að nýju. 

„Það er eitt af þeim atriðum sem horft er til við endurröðun, hve mikið svigrúm hægt sé að gefa.“

Klara segir KSÍ hafa verið þokkalega í stakk búið til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi. 

„Við vitum að knattspyrnuhreyfingin lifir ekki í neinum sóttvarnahjúpi. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta gæti komið upp hjá okkur eins og á öðrum stöðum í þjóðfélaginu.“

mbl.is