Reynum að hrista upp í þessu hvor hjá annarri

Vigdís Jónsdóttir er núverandi Íslandsmethafi í sleggjukasti.
Vigdís Jónsdóttir er núverandi Íslandsmethafi í sleggjukasti. Ljósmynd/University of Memphis

Vigdís Jónsdóttir úr FH og ÍR-ingurinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir eru tveir bestu sleggjukastarar Íslands frá upphafi. Vigdís bætti Íslandsmetið á Origo-móti FH í Kaplakrika á laugardag er hún kastaði 62,58 metra og bætti eigið met um 20 sentímetra. Elísabet var aðeins 16 ára gömul þegar hún bætti þágildandi Íslandsmet Vigdísar á kastmóti UMSB í Borgarnesi í maí á síðasta ári, en hún kastaði þá 62,16 metra.

Kepptu þær báðar á Innanfélagsmóti ÍR í Laugardalnum í síðustu viku og þá hafði Elísabet betur, en hún kastaði 61,58 metra og Vigdís 61,49 metra. Morgunblaðið ræddi við Vigdísi og Elísabetu og viðurkenndu þær báðar að ákveðinn rígur hefði myndast á milli þeirra undanfarið og er baráttan um Íslandsmetið hörð.

Guð minn góður, já

„Það er rígur þarna á milli og við reynum að hrista upp í þessu hjá hvor annarri. Það er ekkert illt á bak við það, en auðvitað kemur pirringur ef maður missir met. Það er holl samkeppni og svo þegar upp er staðið er þetta bara leikur,“ sagði Vigdís, en hún viðurkennir að það hafi verið áfall að missa metið í fyrra. „Guð minn góður, já. Ég var á leiðinni á æfingu og ég sá þetta fyrir tilviljun á Instagram og ég trúði þessu ekki. Þetta var svakalegt spark í rassinn,“ sagði Vigdís. Hefur hún alls ellefu sinnum sett Íslandsmet í fullorðinsflokki en hún viðurkennir að það sé sætara að slá metið þegar samkeppnin er meiri. „Áður en Elísabet tók metið af mér gerði ég ekki mikið mál úr þessu, en núna er þetta orðið sætara þar sem það er alvörusamkeppni. Það er öðruvísi að ná metinu af annarri manneskju en að bæta eigið met. Staðreyndin er sú að það er kalt á toppnum og það er ekki gaman að gera þetta einn með sjálfum sér.“

Staðráðin í að ná metinu aftur

Skiljanlega var Elísabet aðeins kátari með að slá Íslandsmetið en Vigdís að missa það á síðasta ári. „Það var ótrúlega gaman að ná metinu af henni í fyrra. Ég vissi alveg að ég ætti þetta inni en ég bjóst ekki endilega við því að kasta svona langt á þessu móti. Þetta var rosalega skemmtilegt. Það var svo spark í rassinn að missa metið og núna ætla ég mér að ná því aftur. Ég vissi að Vigdís ætti það alveg inni að ná metinu aftur, en maður er aldrei búinn undir það að missa svona met. Ég var staðráðin í að ná því aftur um leið og ég missti það og það er engin spurning um að ég mun ná því. Ég hef nægan tíma, þar sem ég er enn bara 17 ára og verð 18 á þessu ári. Ég er rétt að byrja í þessu,“ sagði Elísabet.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Elísbet Rut Rúnarsdóttir.
Elísbet Rut Rúnarsdóttir. Ljósmynd/FRÍ
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert