Staðan er gríðarlega erfið

Freyr Ólafsson, til hægri.
Freyr Ólafsson, til hægri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mótið var fært því Kópavogsvöllur stenst ekki skoðun,“ sagði Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, í samtali við mbl.is í dag. Fyrr í dag var greint frá því að Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum yrði fær frá Kópavogsvelli til Þórsvallar á Akureyri. 

Ljóst er að Kópavogsvöllur yrði ekki klár fyrir mótið, en það fer fram helgina 25.-26. júlí. „Kópavogur ætlaði að laga það sem út af stóð, sem var kastsvæðið. Það er svo komið gervigras á völlinn, sem er upphafið af endalokunum. Það kom svo í ljós fyrir tveimur dögum að þeir ná ekki að laga það sem laga þarf, þar sem þetta eru meiri lagfæringar en þeir héldu, svo Breiðablik varð að gefa mótið frá sér.“

Staðan í frjálsíþróttum hér á landi er erfið, þar sem fáir vellir koma til greina þegar halda á mót á borð við Meistaramót. „Staðan er gríðarlega erfið í augnablikinu. Það standa yfir viðgerðir á Laugardalsvelli og bygging ÍR-vallarins hefur dregist mjög. Það eru því erfiðleikar víða,“ sagði Freyr. Hann segir erfitt að færa mót eins og Meistaramót með svo skömmum fyrirvara. 

„Það er alltaf erfitt að færa svona mót, sérstaklega með þessum stutta fyrirvara, en við erum mjög þakklát fyrir að vera með völl og starfsfólk. Sem betur fer er það til fyrir norðan. Það getur verið gott veður, sól og sæla, fyrir norðan og vonandi dettum við í lukkupottinn,“ sagði Freyr. 

mbl.is