Biðjast afsökunar á handtöku spretthlaupara

Bianca Williams á hlaupabrautinni.
Bianca Williams á hlaupabrautinni. AFP

Lögreglan í Lundúnum hefur beðið spretthlauparann Biöncu Williams afsökunar á „óþægindum“ sem hún varð fyrir við líkamsleit í borginni. Myndband af leitinni hefur verið birt á netinu, en þar sést hvernig lögregla dregur hana og eiginmann hennar, portúgalska hlauparann Ricardo dos Santos úr bíl þeirra og handjárnar á meðan þriggja mánaða sonur þeirra er í bílnum.

Lögregla í Englandi og Skotlandi hefur heimild til að framkvæma líkamsleit án samþykkis einstaklinga hafi hún „réttmæta ástæðu“ til að ætla að viðkomandi sé vopnaður, með ólögleg eiturlyf í fórum sínum, á stolnum bíl eða með eitthvað á sér sem nota mætti til að fremja glæp, svo sem kúbein.

Í samantekt BBC segir að skilgreiningin á réttmætri ástæðu (e. reasonable grounds) hafi oft verið umdeild, en lögregluráðið á Englandi hefur til að mynda átt í deilum við lögreglustjóra um hvort kannabislykt réttlæti líkamsleit.

Ítrekað stöðvaður eftir að hann keypti sér bílinn

Ekkert grunsamlegt fannst þó í fórum Williams og eiginmanns hennar og var þeim sleppt skömmu síðar. Í viðtali við BBC Radio 5 í fyrradag sakaði Williams lögreglu um kynþáttamismunun. „Þetta er sorglegur heimur sem við búum í, og ef það er ekki einn svartur maður þá er það sá næsti,“ sagði hún. Sagðist hún telja að þau hefðu vakið grunsemdir lögreglu fyrir það eitt að vera svart fólk keyrandi Mercedes Benz.

Dos Santos hefur gefið það út að hann hyggist leita sér lögfræðiaðstoðar, en hann segist hafa verið stoppaður af lögreglu 15 sinnum hið minnsta frá því hann keypti sér Mercedes-bíl í nóvember 2017.

mbl.is