12 högg á 2,9 sekúndum

Muhammad Ali stendur yfir Sonny Liston eftir að hafa rotað …
Muhammad Ali stendur yfir Sonny Liston eftir að hafa rotað hann með „vofuhöggi“ í seinni viðureign þeirra um þungavigtartitilinn í hnefaleikum. AP/John Rooney

Stuttu eftir að hafa fest sig í sessi sem heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum, með tveimur sigrum gegn Sonny Liston og öðrum gegn Floyd Patterson, fékk Muhammad Ali slæmar fréttir.

Hann hafði skráð sig á lista fyrir herinn á 18 ára afmæli sínu, 1960, vegna herskyldu í Bandaríkjunum. Tveimur árum seinna var hann flokkaður 1-A sem þýddi að hann gæti þurft að gegna herskyldu.

1964, rétt fyrir fyrsta bardaga hans gegn Sonny Liston um heimsmeitaratitilinn, tók hann skriflegt próf fyrir herinn og gekk svo illa að hann féll á prófinu og var skráður með 78 í greindarvísitölu. Ali sagðist eftir prófið hvorki hafa skilið spurningarnar né vitað hvernig ætti að nálgast þær. „Ég sagði að ég væri bestur,“ sagði hann. „Ekki gáfaðastur.“ Ali var flokkaður á ný, nú sem 1-Y; ógjaldgengur í herinn.

Í byrjun árs 1966 hafði stríðsrekstur Bandaríkjahers í Víetnam orðið þungbærari og því var ákveðið að prófseinkunn Ali væri nógu góð til að hann yrði sendur í stríð. Hann var aftur flokkaður sem 1-A.

Sama dag hringdi sími Alis án láts. Ali hafði lítið vit á stríðinu í Víetnam en svaraði samt sem áður snilldarlega þegar einn blaðamaðurinn hringdi. „Veistu, ég á ekki í neinum deilum við þessa Víet-Kong.“

Farið með þá eins og hunda

Viðbrögð Ali vöktu mikla reiði meðal landa hans en stríðsreksturinn var á þessum tíma studdur af flestum innan Bandaríkjanna. Ali fékk þó stuðning víðsvegar að, meðal annars frá breska heimspekingnum Bertrand Russell.

Vegabréfið var tekið af Ali og hann hóf þá að fara á milli háskóla í Bandaríkjunum og tala gegn stríðinu í Víetnam. Hann hafði kynnt sér stríðið og sagðist ekki ætla að drepa víetnamskt fólk fyrir hönd ríkisvalds sem virðir ekki einu sinni mannréttindi síns eigin fólks.

Bakhjarlar Ali vildu hjálpa honum að sinna herskyldu sinni án þess að berjast á vígvellinum, t.d. með sýningarbardögum í hnefaleikum. Ali tók það ekki í mál og stóð á sínu. „Af hverju ættu þeir að biðja mig að klæðast búningi, fara 10 þúsund mílur frá heimili mínu, sleppa sprengjum og byssukúlum á brúnt fólk í Víetnam á meðan farið er með svokallaða negra í Louisville eins og hunda?“ sagði hann við Sports Illustrated.

28. apríl 1967 átti að taka Muhammad Ali í herinn. Hann mætti á svæðið en steig ekki fram þegar fyrrverandi nafn hans, Cassius Clay, var kallað. Honum var tjáð að hann gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi. En honum stóð á sama og steig ekki fram.

Högg svo hröð þau sjást ekki

Sugar Ray Robinson, heimsmeistari í millivigt, var eitt af átrúunargoðum Cassius Clay í æsku. Clay byggði hnefaleikastíl sinn á því að stór maður gæti fengið að láni stílinn frá minni manni og þannig sameinað styrk og hraða. Hann var því ólíkur því sem fólk átti að venjast frá þungavigtarkappa.

„Maðurinn bjó yfir líkamsburðum sem aðeins tveir í sögunni hafa búið yfir. Það voru Ali og Bruce Lee,“ segir Ómar Ragnarsson, fréttamaður, við sunnudagsblaðið. Bruce Lee var sagður svo fljótur það skapaði vandamál fyrir kvikmyndatökumenn í myndum hans. „Þegar högg þeirra eru stúderuð eru þau svo hröð sum að þau nást ekki á mynd,“ segir Ómar.

„Hreyfingarnar allar voru svo ofboðslega fallegar hjá Ali,“ segir Ómar. „Þetta er svo fagurskapaður skrokkur. Dansandi fótahreyfingarnar voru lykillinn. Þær byrja í tám og ökkla og fara eins og rafstraumur í gegnum skrokkinn, í gegnum mjaðmirnar, axlirnar, handleggina og yfir í hnefana á yfirnáttúrulegum hraða.“

Clay gerðist atvinnumaður í október 1960 og varð fljótt einn sá besti í þungavigtinni. Ferdie Pacheo, læknir Clay, hafði eitt sinn á orði að á fyrstu árum hans sem atvinnumaður hafi hann verið fullkominn líkamlega. „Það var ekki hægt að gera hann betri,“ sagði hann. „Fullkomin samsvörun, fallegur, viðbrögð á ljóshraða og frábær skilningur á íþróttum. Jafnvel þegar hann fékk kvef fór það næsta dag.“

Ekkert „vofuhögg“

Clay barðist við Sonny Liston um heimsmeistaratitilinn árið 1964 og sigraði þegar Liston gafst upp eftir sjöttu lotu. Í kjölfarið tók hann upp nýtt nafn, Muhammad Ali.

Ali barðist aftur við Liston 1965 og sigraði þá með rothöggi í fyrstu lotu. Rothöggið var ólíkt þeim bylmingshöggum sem menn voru vanir í þungavigtinni. Var það kallað „vofuhögg“. „Ég skil ekki deilurnar út af því, því vofuhögg þetta er þó sjáanlegt á einum myndramma á kjálka Listons,“ segir Ómar. „Höfuð hans hreyfist eldsnöggt og það sést en ekki höggið sjálft því það er í skjóli við höfuðið. Þegar Liston stekkur áfram til þess að ná Ali og fær höggið á sig án þess að sjá það er það því náttúrulega hreint rothögg.“

Ali varði titilinn gegn Floyd Patterson og tveimur öðrum áður en hann mætti Brian London 1966. „Ali rotar hann með tólf höggum í röð á 2,9 sekúndum,“ segir Ómar. „Af þessum tólf höggum er bara eitt sem hittir beint í á kjálkann. Öll hin höggin eru til þess að opna vörnina. Þegar þú horfir á fótaburðinn þegar hann gerir þetta er svo mikil fegurð í þessu að þú steingleymir því hvað þetta er grimm íþrótt. Ali innleiddi fegurð í íþrótt sem fáir höfðu áður hugsað sér að nein fegurð væri til í.“

Greinina í heild sinni má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »