Gamla ljósmyndin: Ísinn brotinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Kvennalandsliðið í knattspyrnu varð fyrsta íslenskra landsliða í knattspyrnu (ef frá eru talin lið í yngri aldursflokkum) til að leika í lokakeppni eða á stórmóti eins og það er gjarnan kallað. Liðið tryggði sér rétt til þess á héluðum Laugardalsvelli hinn 30. október árið 2008. 

Ísland vann þá Írland 3:0 í síðari leik liðanna í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi 2009 og samtals 4:1 eftir að hafa gert 1:1 jafntefli ytra í fyrri leiknum. 

Leikurinn fór fram við vægast sagt erfiðar aðstæður í Laugardalnum og í raun hættulegar. Dúkur sem lá yfir vellinum hafði verið tekinn af daginn fyrir leikinn og um nóttina frysti með slæmum afleiðingum. Völlurinn var því afar háll en íslensku konurnar stóðu betur í fæturna á svellinu en þær írsku og unnu sanngjarnan sigur. 

Á myndinni fagna landsliðskonurnar marki Dóru Maríu Lárusdóttir í leiknum en hún skoraði fyrsta og þriðja mark Íslands og lagði upp annað markið fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur. Dóra er líklega í fanginu á Eddu Garðarsdóttur en aðrar á myndinni eru frá vinstri: Guðrún Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Ólína G. Viðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Ásta Árnadóttir (5). 

Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, Golli, sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áraraðir. 

Ísland hafnaði í 2. sæti í sínum riðli í undankeppninni á eftir Frakklandi en Ísland vann heimaleikinn gegn Frakklandi 1:0 sumarið 2007 og er það eitt sterkasta lið sem það íslenska hefur lagt að velli í mótsleik. 

Margt jákvætt gerðist hjá landsliðunum í knattspyrnu á árunum á eftir að konurnar brutu ísinn í klakanum í október 2008. Kvennalandsliðið fór einnig á næstu EM bæði 2013 og 2017. U21 árs landslið karla komst á EM 2011 og karlalandsliðið á EM 2016 og HM 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert