„Langaði bara að deyja“

Tyson Fury eftir að hafa endurheimt heimsmeistaratitil sinn með sigri …
Tyson Fury eftir að hafa endurheimt heimsmeistaratitil sinn með sigri á Deontay Wilder í febrúar. AFP

Flestir íþróttamenn eiga sér markmið sem þeir vinna að dag og nótt. Það getur verið að komast á Ólympíuleika, vinna þar til verðlauna, verða heimsmeistari eða í raun hvað sem er.

Íþróttamennirnir sjá fyrir sér að ná takmarki sínu og halda að þá muni þeir loksins verða ánægðir; allt verði gott viti þeir að markmiðinu er náð. En raunveruleikinn er oftast ekki eins og við ímyndum okkur hann.

Tyson Fury varð heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum árið 2015 þegar hann varð fyrstur til að sigra Vladimir Klitschko, 27 ára að aldri. „Ég var búinn að hafa þetta sem markmið síðan ég var krakki,“ sagði Fury í hlaðvarpsþætti Joe Rogan seint á árinu 2018.

Í kjölfar sigursins sökk Fury í djúpt þunglyndi. „Það var eins og ég hefði ekkert annað við líf mitt að gera,“ sagði hann. Hann sagði við sjálfan sig: „Af hverju vaknaði ég í morgun? Þetta kemur frá manni sem hafði allt: Peninga, frægð, titla, konu, börn, allt. Mér leið eins og ég hefði ekkert. Eins og það væri stór hola.“

Þessa holu reyndi Fury að fylla með vímuefnum, partístandi og kvennafari. Hann segist aldrei hafa notað eiturlyf fyrr en hann varð 27 ára og varð heimsmeistari. „Mér var sama um allt. Mig langaði bara að deyja,“ sagði hann. „Allir gáfust upp á mér.“

Bara árangurinn skipti máli

Á dögunum frumsýndi HBO klukkutímalanga heimildarmynd sem ber nafnið The Weight of Gold. Sundkappinn Michael Phelps, sigursælasti ólympíufari sögunnar, er einn framleiðenda myndarinnar. Phelps talar einnig yfir myndina en hún fjallar um þunglyndi og aðra andlega kvilla sem ólympíufarar þurfa að glíma við.

Meðal þeirra sem koma fram í myndinni eru Shaun White snjóbrettakappi, Sasha Cohen listskautari, Lolo Jones spretthlaupari, Apolo Ohno skautahlaupari og fleiri. Mörg þeirra hafa unnið til verðlauna á Ólympíuleikum en vilja opna umræðuna um andleg veikindi íþróttamanna.

Phelps gagnrýnir bandaríska Ólympíusambandið fyrir að styðja ekki nægilega við bakið á íþróttamönnum sínum nema það sé í þeim tilgangi að þeir nái árangri inni í íþróttinni. „Í hreinskilni sagt, þegar ég lít til baka yfir ferilinn minn, held ég að enginn hafi í raun viljað hjálpa okkur,“ segir Phelps í myndinni. „Ég held að enginn hafi stokkið til og spurt hvort það væri í lagi með okkur. Svo lengi sem við vorum að standa okkur í íþróttinni, held ég að ekkert annað hafi skipt máli.“

Nánar er fjallað um andlega heilsu íþróttamanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert