Fátt í boði fyrir Arnar

Arnar Pétursson sigrar í 1.500 m hlaupi karla í Kaplakrika …
Arnar Pétursson sigrar í 1.500 m hlaupi karla í Kaplakrika fyrr á árinu. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Arnar Pétursson, úr Breiðabliki, segist hafa verið í formi til að gera atlögu að besta tíma Íslendings í maraþoni í átta mánuði. Hann glímir hins vegar við það vandamál að erfitt er að finna maraþonhlaup til að keppa í á tímum kórónuveirunnar. Síðast í gær varð Arnar fyrir vonbrigðum þegar ákveðið var að aflýsa maraþonhlaupi í Frankfurt sem hann var með í sigtinu.

„Frankfurt-maraþoninu sem ég ætlaði að taka þátt í var frestað í dag. Enn ein tíðindin sem eru á annan veg en maður óskaði sér. Haustmaraþon Félags maraþonhlaupara er á dagskrá í Reykjavík 25. október. Mögulega gæti það bara verið eina maraþonið sem er á dagskrá í heiminum. Þá verður hlaupið frá Elliðaárdalnum, út eftir Ægisíðunni og snúið við þar. Tvær slíkar ferðir,“ sagði Arnar þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Svo gæti farið að hann taki þátt í því hlaupi en ætlar að vega og meta aðstæður í ljósi þess að langt verður liðið á haustið.

„Ég stefni að því að vera með en ef það verður frost yfir öllu eða leiðindaveður þá ætla ég ekki að hlaupa maraþon bara til þess að hlaupa maraþon. Ekki er útlit fyrir aðra möguleika á næstunni. London-maraþonið mun fara fram fyrir nokkra elítuhlaupara en ég setti ekki stefnuna á það.“

Í hörkuformi á þessu ári

Arnar var vongóður um góðan árangur á árinu eftir að hafa staðið sig vel á síðasta ári.

„Í apríl þegar ég ætlaði að hlaupa maraþon þá hafði ég hlaupið hálft maraþon á klukkutíma og sex mínútum sem er næstbesti tími Íslendings í greininni frá upphafi. Ég gerði það í tíu metrum á sekúndum og því ekki við skemmtilegar aðstæður. Gaf það til kynna að maður myndi hlaupa á bilinu 2:15 til 2:17 klukkustundum í maraþoni. En svo fékk ég ekki að gera það í apríl þar sem allt féll niður. Ég myndi segja að ég hafi verið í Íslandsmetsformi í maraþoni í einhverja átta til níu mánuði. En maður fær ekki að taka það út. Eitt er að vita að maður geti slegið Íslandsmetið sem er 2:17,12 klukkustundir, en maður þarf að fá tækifæri til að gera það. Þegar kemur að maraþoni þá er það meira en að segja það. Maður þarf að vera í réttum gír og fá heppilegt veður og góða braut til að ná góðum tíma.“

Viðtalið við Arnar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »