Gamla ljósmyndin: Óvenjulegur ferill

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðmundur Eggert Stephensen státar af einhverjum óvenjulegasta keppnisferli í íslenskri íþróttasögu. Athygli vakti um allt land þegar Guðmundur varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari í meistaraflokki í borðtennis árið 1994 vegna þess að Guðmundur var aðeins 11 ára gamall. 

Guðmundur keppti fyrst í meistaraflokki í íþróttinni 9 ára gamall. Í gömlum viðtölum við Guðmund er haft eftir honum að hann hafi byrjað að æfa íþróttina 4 ára gamall en hafi byrjað að slá í veggi 2-3 ára gamall. Ættingjar hans léku borðtennis og hann komst af þeim sökum strax í kynni við íþróttina. 

Snemma fóru ljósmyndarar á stúfana að mynda drenginn. Á myndinni skemmtilegu sem hér er birt er Guðmundur ekki hár í loftinu en hún er tekin af Júlíusi Sigurjónssyni sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is árum saman. Í myndasafni Morgunblaðsins er hún merkt árinu 1987 en þá var Guðmundur einungis 5 ára gamall. Ástríðan leynir sér ekki. 

Guðmundur vann einliðaleikinn á Íslandsmótinu tuttugu skipti í röð og lét þá staðar numið og tilkynnti að hann væri hættur keppni í borðtennis en Guðmundur keppti fyrir Víking hér heima. 

Afrek Guðmundur eru of mörg til að hægt sé að telja þau upp hér en til dæmis má nefna að hann varð fyrsti Íslendingurinn sem varð Norðurlandameistari í meistaraflokki í íþróttinni. Í því samhengi má geta þess að Svíar hafa oft átt heimsklassafólk í borðtennis. 

Guðmundur hafði borðtennis að atvinnu í mörg ár og keppti sem atvinnumaður fyrir lið í Svíþjóð og síðar í Hollandi. Keppti hann til að mynda í Evrópukeppni félagsliða með þeim. 

Guðmundur var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1994. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert