Gamla ljósmyndin: Landsliðsmaður í 22 ár

Morgunblaðið

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

„Öðru hverju koma fram íþróttamenn sem eru náttúrubörn og virðast hafa fullkomið líkamlegt atgervi til að stunda íþróttir. Valbjörn Þorláksson var dæmi um slíkt, en hann náði meðal annars þeim árangri að verða landsliðsmaður í frálsum íþróttum í 22 ár,“ skrifaði Hallgrímur Indriðason meðal annars í kaflanum um Valbjörn Þorláksson í bókinni Hetjurnar okkar. 

Valbjörn var fjölhæfur enda keppti hann í tugþraut en lagði áherslu á stangarstökkið fyrr á ferlinum. Hann vann sig inn á Ólympíuleika í báðum greinum. Áður en hann fór í frjálsar hafði hann auk þess orðið Íslandsmeistari í 2. flokki í knattspyrnu með Keflavík. 

Meðfylgjandi mynd er úr safni Morgunblaðsins og er merkt árinu 1978. Þegar menn eru miklir afreksmenn og eru einnig lengi að þá safnast verðlaunagripirnir saman. Eins og sjá má var safn Valbjörns býsna veglegt. 

Valbjörn keppti fyrir ÍR, Ármann og KR í frjálsum. Hann keppti á þrennum Ólympíuleikum: Í Róm árið 1960, í Tókýó árið 1964 og í Mexíkóborg árið 1968. Hann náði raunar ólympíulágmarki í stangarstökki fyrir leikana í Melbourne 1956 en var ekki sendur á leikana. Hann hafnaði í 17. sæti í stangarstökki á leikunum 1960 og í 12. sæti í tugþraut á leikunum 1964. 

Valbjörn hlaut tvívegis sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, 1959 og 1965.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert