Gamla ljósmyndin: Strætisvagnabílstjórinn

Morgunblaðið/Friðþjófur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Þegar karlalandsliðið í knattspyrnu vakti athygli fyrir framgöngu sína á EM 2016 í Frakklandi þreyttust erlendir fjölmiðlar ekki á að minnast á að Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari hafi starfað sem tannlæknir. 

Er þetta ekki í fyrsta skipti sem erlendir fjölmiðlar hafa áhuga á þessu atriði varðandi íslenskt íþróttafólk og örugglega ekki það síðasta. Í gegnum árin og áratugina hafa erlendir fjölmiðlar oft hnotið um íslenskt afreksíþróttafólk sem ekki lifir alfarið af íþróttinni. 

Þegar Hreinn Halldórsson sló atvinnumönnum við og varð Evrópumeistari innanhúss í kúluvarpi árið 1977 í San Sebastian á Spáni var hið sama uppi á teningnum. Blöð víða í Evrópu fjölluðu um afrek Hreins og gerðu sér mat úr því að hann hefði atvinnu af því að keyra strætisvagna í Reykjavík samhliða umfangsmikilli þjálfun. 

Á meðfylgjandi mynd er Hreinn við stýrið en myndina tók Friðþjófur Helgason og birtist hún fyrst á bls. 2 í Morgunblaðinu 17. mars árið 1977. Í texta með myndinni er skrifað: „Hreinn Halldórsson, nýbakaður Evrópumeistari í kúluvarpi, tók aftur til starfa í gær við akstur strætisvagna Reykjavíkur eftir skottúrinn til Spánar þar sem hann skaut öllum beztu kúluvörpurum Evrópu ref fyrir rass. Hreinn kom beint af æfingu í vinnuna og hann var meira að segja með lyftingabeltið á sér.“

Lengsta kast Hreins á ferlinum kom í Stokkhólmi sumarið 1977 þegar hann kastaði 21,09 metra. Setti hann þá Íslandsmet sem stóð í þrettán ár. Hreinn keppti tvívegis á Ólympíuleikum. Í Montreal árið 1976 og í Moskvu árið 1980. 

Hreinn hlaut þrívegis sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, 1976, 1977 og 1979. Árið 1977 fékk hann fullt hús atkvæða í kjörinu. 

Hreinn Halldórsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 29. desember árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert