Gamla ljósmyndin: Sigurbros á vör

Morgunblaðið/Friðþjófur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessi sjón var býsna algeng um tíma í íslensku íþróttalífi. Skagamaðurinn Ragnheiður Runólfsdóttir brosandi og sigri hrósandi eftir að hafa skilað sér að sundlaugarbakkanum.

Myndin er tekin á Meistaramóti Íslands innanhúss í sundi árið 1984 og birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 4. apríl 1984. Myndina tók Friðþjófur Helgason og þar fagnar Ragnheiður nýju Íslandsmeti í 200 metra baksundi. Synti hún vegalengdina á 2:31,52 mínútum.

Þegar þarna er komið sögu var Ragnheiður aðeins á átjánda ári og keppnisferill hennar átti eftir að standa til ársins 1993 þegar hún hætti og sneri sér að þjálfun. 

Ragnheiður setti fjölda Íslandsmeta á sínum ferli og komst í úrslit oftar en einu sinni á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug. Hafnaði hún í 5. sæti á EM árið 1989. 

Ragnheiður keppti tvívegis á Ólympíuleikum. Í Seúl árið 1988 og í Barcelona árið 1992. 

Ragnheiður Runólfsdóttir varð önnur konan til að hljóta sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna þegar hún varð efst í kjörinu árið 1991.

Ragnheiður sinnir í dag þjálfuninni af krafti og er yfirþjálfari hjá sundfélagi í Gautaborg í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert