Gaf eftir verðlaunasæti

Þríþrautarkappinn Diego Méntrida.
Þríþrautarkappinn Diego Méntrida. Skjáskot/Instagram

Spænskum þríþrautarkappa hefur verið hrósað á samfélagsmiðlum fyrir sannan íþróttaanda eftir að hafa gefið eftir þriðja sætið í Santander-þríþrautinni og leyft öðrum keppanda, sem hafði tekið ranga beygju, að koma á undan í mark.

Breski keppandinn James Teagle var við það að tryggja sér þriðja sætið í keppninni þegar hann gerði mistök í lokabeygju hlaupsins og beygði í vitlausa átt. Mistökin urðu til þess að Spánverjinn Diego Méntrida komst fram úr honum og hefði getað hlaupið yfir marklínuna og tryggt sér þriðja sætið. Þess í stað stoppaði Méntrida og leyfði Teagle að komast fram úr á nýjan leik.

„Hann átti þetta skilið,“ sagði Méntrida í viðtali eftir hlaupið. „Þetta er nokkuð sem foreldrar mínir og félagið hafa kennt mér síðan ég var barn. Að mínu mati er eðlilegt að gera þetta.“

Keppt var í Santander-þríþrautinni í síðustu viku en myndband af atvikinu hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Á föstudag greindu skipuleggjendur þríþrautarinnar frá því að Méntrida hefði verið sæmdur heiðursverðlaunum keppninnar og fengi fyrir vikið 300 evrur (48 þús. kr.) í verðlaunafé, jafnmikið og verðlaunafé fyrir þriðja sætið.

mbl.is