Nokkur met felld á haustmótinu

Örn Davíssoðn, Birkir Örn Jónsson og Símon Gestur Ragnarsson.
Örn Davíssoðn, Birkir Örn Jónsson og Símon Gestur Ragnarsson. Ljósmynd/LSÍ

Haustmót lyftingasambands Íslands í ólympískum lyftingum var haldið á Selfossi í gær en mótið fór fram með óvenjulegu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Sóttvarnareglur voru virtar og áhorfendur og starfsmenn pössuðu að virða nálægðartakmörk.

Haustmótið er Sinclair-stigamót og eru gefin verðlaun fyrir þrjá stigahæstu í karla- og kvennaflokki. Birkir Örn Jónsson var í 1. sæti karla með 318,78 stig, Davíð Örn Davíðsson var annar með 294,16 stig og Símon Gestur Ragnarsson var þriðji með 288,43 stig.

Amalía Ósk Sigurðardóttir var efst kvenna með 235,98 stig, Íris Rut Jónsdóttir var önnur með 214,12 stig og Birta Líf Þórarinsdóttir var þriðja með 203,77 stig. Nokkur ný Íslandsmet voru sett á mótinu.

Amelía Ósk setti met í -64 kílóa flokki undir 23 ára er hún lyfti 101 kílói í jafnhendingu. Símon Gestur lyfti 121 kílói í snörun í -96 kílóa flokki undir 23 ára og Anna Guðrún setti met í lyftum í -87 kílóa flokki. Lyfti 50 kílóum í snörun, 68 í jafnhendingu og 118 í samanlögðu.

Íris Rut Jónsdóttir, Amalía Ósk Sigurðardóttir og Birta Líf Þórarinsdóttir.
Íris Rut Jónsdóttir, Amalía Ósk Sigurðardóttir og Birta Líf Þórarinsdóttir. Ljósmynd/LSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert