„Ef ég er edrú þá er ég bara hrikaleg“

Inga, vinstra megin, með kærri vinkonu, Veigu Dís Hansdóttur, sem …
Inga, vinstra megin, með kærri vinkonu, Veigu Dís Hansdóttur, sem dró hana undir stöngina og skráði hana auk þess á Íslandsmeistaramótið án þess að biðja um leyfi. Inga gerði þar nokkra frægðarför, hafnaði í öðru sæti í -75 kg flokki í gær en Veiga hreppti fyrsta sætið í flokknum og varð auk þess kvenna stigahæst. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ekkert búin að vera að æfa power, þess vegna er þetta svona geggjað!“ segir Sigríður Ingibjörg Jónsdóttir, 28 ára gömul kraftlyftingakona úr Reykjavík sem náði öðru sæti í -75 kg flokki kvenna á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem haldið var í Jakabóli í gær.

Sigríður, sem reyndar gegnir almennt nafninu Inga, segir stálið hafa tekið völdin í lífinu þegar vinkona hennar, Veiga Dís Hansdóttir, sem varð Íslandsmeistari í -75 kg flokki í gær og auk þess stigahæst kvenna á mótinu, dró hana með sér í lóðaríið.

„Ég er 71 kíló og hef alltaf verið íþróttamannslega vaxin og með lága fituprósentu. Ef ég er edrú þá er ég bara hrikaleg,“ segir Inga sem árum saman glímdi við amfetamín- og kannabisfíkn. Hún var í dagneyslu þeirra efna í tíu ár og lýsir því skeiði ævi sinnar sem hreinu helvíti. „Það var vægast sagt hræðilegt,“ segir Inga sem var húsnæðislaus síðustu tvö árin sem hún var neytandi.

275 kíló í samanlögðu

Hún á nú 14 mánaða gamla dóttur og var gengin sjö mánuði með hana þegar hún fékk þak yfir höfuðið eftir að hafa hvergi átt höfði að halla um nokkurt skeið.

Inga æfir nú af krafti í Thor's Power, sem Hafþór Júlíus Björnsson aflraunamaður rekur í Kópavogi, og er alsæl með lífið, segir tilveruna í stálinu halda henni á réttum kili í edrúmennskunni. Á sínum yngri árum æfði hún fimleika í sex ár hjá Fjölni.

Veiga og Inga helhrikalegar og ljóst að bætingaandinn svífur yfir …
Veiga og Inga helhrikalegar og ljóst að bætingaandinn svífur yfir vötnum. Inga glímdi við alvarlega fíkn í áratug. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er samt bara nýbyrjuð í kraftlyftingum og þess vegna finnst mér svo magnað að hafa mætt á þetta mót og tekið 275 í tótal [samanlagðri þyngd í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu]. Veiga peppaði mig í þetta og hún skráði mig reyndar á mótið,“ segir Inga og hlær.

„„Ég er ekkert að fara að keppa á einhverju móti, ég er nýbyrjuð í þessu,“ sagði ég við Veigu. Ég vil vera auðmjúk og ekki með eitthvert mikilmennskubrjálæði, ég er að vinna í því með sjálfa mig núna,“ segir Inga frá og bætir því við að hún hafi loks tekið endanlega ákvörðun um að keppa sex dögum fyrir mótið.

„Alveg klárlega, ég stefni á Fógetamótið, sem svo er kallað, í desember og ég hlakka mikið til að byrja að æfa þessa íþrótt á skipulagðan hátt og sjá árangur,“ segir lyftingakonan, innt eftir því hvort framtíðin liggi í stálinu, og lætur eins og árangurinn um helgina sé ekki neitt neitt.

Hoppaði ekkert bara í ræktina

Hún segir mataræðið skipta öllu máli, „Það er bara fiskur og kjúklingabringur hérna, ég er alveg í þeim pakka. Áramótaheitið mitt var kannski ekki alveg að hætta að borða kjöt heldur borða meira grænmeti og ég hef staðið alveg við það og svo er það bara þetta týpíska prótein á morgnana,“ segir Inga.

Grímurnar á sínum stað og Inga rífur upp 60 kíló …
Grímurnar á sínum stað og Inga rífur upp 60 kíló í bekkpressu eins og enginn sé morgundagurinn. Auk þess lyfti hún 90 kg í hnébeygju og 125 í réttstöðulyftu, tæplega tvöfaldri líkamsþyngd sinni. Skjáskot/Myndskeið

Hún er einstæð móðir dóttur sinnar og þarf að sníða sér stakk eftir þeim vexti. „Ég hoppaði ekkert bara í ræktina þegar ég vildi, þurfti auðvitað að redda mér pössun,“ segir kraftlyftingakonan sem starfaði lengi vel á öldurhúsi. „Þess vegna er ég bara búin að vera í ruglinu,“ segir Inga glettin.

Síðasta starf hennar var þó við skammtímavistun barna og unglinga en nú er hún í endurhæfingu eftir fíkniefnameðferð á Vogi og Vík. „Ég fór tvisvar á Vog og var auk þess í afeitrun á geðdeild,“ rifjar Inga upp. Framtíðardraumarnir snúast þó um aðra og háleitari vegu en bekkpressu og réttstöðulyftu, að þeim góðu greinum þó ólöstuðum.

Biblían og bekkpressustöngin

„Ég er búin að skrá mig í guðfræði í háskólanum eftir áramót. Ég get ekki útskýrt af hverju en þetta er bara köllun mín,“ segir Inga sem er stúdent úr Flensborgarskóla, en var fyrstu þrjú ár framhaldsskólaferils síns í Menntaskólanum í Reykjavík.

Hún var gengin þrjá mánuði með dóttur sína þegar hún komst að því að hún var kona ekki einsömul. „Þá varð ekkert aftur snúið og ég fór í meðferð.“ Segir Inga afeitrunina hafa verið mjög erfiða. „Af því að ég var ólétt mátti ég ekki fá þessi hefðbundnu fráhvarfslyf sem eru gefin heldur mun vægari lyf og þess vegna tók þetta allt mun lengri tíma. Ég var í tíu daga á geðdeildinni í afeitrun og svo tvær vikur á Vogi. Þegar ég kom úr meðferð var ég komin sex mánuði á leið og átti ekkert heimili. Ég dvaldi þá á áfangaheimili fyrir konur og það var bara drulluerfið staða, ég var að verða móðir og vissi ekkert hvar ég átti að búa með barnið,“ segir Inga um tímabilið eftir að hún lauk meðferðinni.

Sannar valkyrjur. Inga, Veiga og Sonja Ólafsdóttir sem varð Íslandsmeistari …
Sannar valkyrjur. Inga, Veiga og Sonja Ólafsdóttir sem varð Íslandsmeistari í -67 kg flokki í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Það var enginn valmöguleiki fyrir mig að fara aftur til foreldra minna, ég hafði ekkert bakland á þessum tíma og varð bara að treysta á sjálfa mig og græja þetta og núna er ég komin hingað og ég er ekkert að fara að stoppa,“ segir Inga og er þakklát starfsfólki barnaverndar fyrir að útvega henni húsnæði og hjálpa henni.

Vann með barnavernd ólíkt sumum

„Barnavernd var komin í mín mál af því að ég var nýbökuð móðir og búin að vera í neyslu. Ég ákvað að vinna með þeim frekar en á móti þeim eins og margir gera og það var barnavernd sem hjálpaði mér að komast í húsnæði í gegnum félagsþjónustuna,“ segir kraftlyftingakonan og kveðst ákaflega þakklát starfsfólki barnaverndar.

„Ég fékk þetta húsnæði þegar ég var komin átta mánuði á leið og það stóð reyndar tæpt. Þegar ég var barn gerði kerfið ekkert fyrir mig, ég kem af heimili þar sem var mikil óregla og við vorum þrjár systurnar,“ segir Inga sem er elst þeirra systra.

Hún hafi hins vegar mun betri reynslu af barnaverndaryfirvöldum nú á fullorðinsárum og ber þeim vel söguna. „Nú lifi ég bara fyrir dóttur mína,“ segir Inga að lokum sem hyggst ekki láta deigan síga í stálinu og stefnir ótrauð á keppni um titilinn sterkasta kona Íslands samhliða guðfræðinámi sínu og mætti þá ef til vill segja að þar mættust stálin stinn, biblían og bekkpressustöngin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert