Æfingar geta hafist í næstu viku

Aron Bjarki Jósepsson og Aron Bjarnason í leik KR og …
Aron Bjarki Jósepsson og Aron Bjarnason í leik KR og Vals í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Æfingar íþróttafélaga ættu að geta hafist þann 20. október að því er fram kemur í minnisblaði sóttvarnarlæknis. Eru umræddar æfingar skilyrðum háðar, en að því er segir á vef stjórnarráðsins má iðka íþróttir sem ekki krefjast snertingar. Þá verður að tryggja að tveggja metra reglu auk þess sem að hámarki tuttugu einstaklingar mega koma saman. 

Ráðgera má að reglugerðin eigi við íþróttir innan húss og utan. Ekkert kemur þó fram um það í minnisblaðinu. Ljóst er að takmarkanirnar eru talsverðar en þær gera íþróttafélögum, þar á meðal knattspyrnuliðum, kleift að hefja vissar æfingar að nýju. 

Heimilt að leika íþróttir á landsbyggðinni

Í minnisblaðinu kemur enn fremur fram að æfingar og keppni í íþróttum sem krefjast snertingar verði óheimilar, innan húss og utan. Það gildi um fullorðna og börn. Þá verður sömuleiðis allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri sem krefst snertingar óheimilt.

Utan höfuðborgarsvæðisins eru reglurnar þó rýmri. Íþróttaiðkun, jafnvel sú sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar, verður heimil jafnt innan- og utandyra. Engir áhorfendur geta þó verið viðstaddir. Að sama skapi verða líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar. 

mbl.is