Bætti sinn besta árangur

Andrea Kolbeinsdóttir og Elín Edda Sigurðardóttir hlupu báðar í Póllandi …
Andrea Kolbeinsdóttir og Elín Edda Sigurðardóttir hlupu báðar í Póllandi í dag. mbl.is/Stella Andrea

Andrea Kolbeinsdóttir hafnaði í 89. sæti á HM í hálfu maraþoni sem fram fór í Gdynia í Póllandi í dag.

Andrea kom í mark á tímanum 1:17:52 klukkustundir sem er hennar besti árangur í greininni.

Elín Edda Sigurðardóttir kom í mark á tímanum 1:24:20 klukkustundir og hafnaði í 101. sæti.

Andrea og Elín Edda eru báðar margfaldir Íslandsmeistarar í langhlaupum og eiga þær annan og þriðja besta tíma íslenskra kvenna í hálfu maraþoni frá upphafi.

Aðeins átta sekúndur skilja þær að þar sem Elín á betri tíma. Elín Edda hefur einnig hlaupið næst hraðasta maraþon íslenskrar konu. 

Andrea á stúlknamet 18-19 og 20-22 ára í hálfu maraþoni ásamt því að eiga Íslandsmetið í 3000 metra hindrunarhlaupi.

Alls voru 105 keppendur skráðir til leiks í Póllandi í morgun en fjórum tókst ekki að ljúka keppni.

mbl.is