Sleppur við bann eftir spaugleg mistök

Salwa Eid Naser sleppur við bann.
Salwa Eid Naser sleppur við bann. AFP

Ríkj­andi heims­meist­ari í 400 metra hlaupi kvenna, Salwa Eid Naser, sleppur við bann fyrir að skrópa í lyfjapróf þar sem starfsmaður lyfjaeftirlitsins bankaði á vitlausa hurð þegar hann ætlaði að prófa hlaupakonuna á hóteli sem hún dvaldi á. 

Ruglaðist starfsmaðurinn í leit sinni að Eid Naser og samkvæmt frétt The Guardian bankaði hann á hurð á herbergi sem innihélt gaskúta í meira en klukkutíma, þrátt fyrir að merkingar á hurðinni bæru þess merki að lítið annað en gaskúta væri þar að finna. 

Naser vann gullið á heims­meist­ara­mót­inu í Doha á síðasta ári er hún hljóp á 48,14 sek­únd­um, sem er þriðji hraðasti tími sög­unn­ar og sá hraðasti síðan 1985. Um leið varð hún fyrsta asíska kon­an til þess að verða heims­meist­ari í 400 metra hlaupi.

Naser er 22 ára göm­ul og er fædd í Níg­er­íu en hóf að keppa fyr­ir hönd Bahrain árið 2014. Átti hún yfir höfði sér tveggja ára bann, en sleppur vegna starfsmannsins ringlaða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert