Boston-maraþonið verður ekki í apríl

Lawrence Cherono frá Kenía fagnar sigri í Boston maraþoninu árið …
Lawrence Cherono frá Kenía fagnar sigri í Boston maraþoninu árið 2019. AFP

Erfiðlega gengur að skipuleggja Boston-maraþonið vegna kórónuveirunnar og þeirra afleiðinga sem hún hefur á viðburði. Hlaupið á sér langa sögu og fer vanalega fram á „Patriots day“ í apríl. 

Boston-maraþonið fór í fyrsta skipti fram árið 1897 og því er mikil hefð fyrir viðburðinum í borginni og hafa Íslendingar af og til tekið þátt í því í gegnum árin. 

Aflýsa þurfti hlaupinu í ár vegna veirunnar. Var því fyrst frestað fram í september og loks aflýst. 

Nú er ljóst að skipuleggjendur treysta sér ekki til að halda viðburðinn í apríl 2021 og hefur hlaupinu verið frestað fram á haustið en dagsetning verður ákveðin í lok árs. 

Boston-maraþonið var í heimsfréttunum árið 2013 þegar hryðjuverkaárás var gerð á því svæði þar sem keppendur komu í mark.

mbl.is