Horfir sem fyrr til Tókýó

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í sjöunda sæti í kjörinu á …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í sjöunda sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands sendi á dögunum frá sér lista yfir íþróttafólk sem vinnur markvisst að því að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó. Á listanum er íþróttafólk sem sérsamböndin telja að eigi raunhæfa möguleika á að komast á leikana. Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er á listanum þótt hún sé ekki orðin 19 ára gömul en framgangur hennar á hlaupabrautinni síðustu árin hefur verið með þeim hætti að væntingar eru til hennar gerðar.

„Æfingarnar í vetur fara mikið eftir því hvernig staðan verður með veiruna. Þá er spurning hversu mikið maður geti æft inni. Ég vonast til að komast inn í höllina og ná gæðaæfingum. Þetta er svolítið óþægilegt fyrir mig og Brynjar þjálfara vegna þess að flóknara er að skipuleggja æfingar í þessu ástandi. Hvenær á að toppa og hvernig á að stjórna æfingaálaginu með tilliti til keppni? Ég vorkenni Brynjari að þurfa að finna út úr því. Ég ætla mér að æfa rosalega vel og ef keppnir verða í boði þá mun ég auðvitað keppa. Ég þarf að ná stigum á ólympíulistanum til að auka möguleikana á því að komast á Ólympíuleikana. Ég mun reyna að ná mótum þar sem stig eru í boði fyrir stigalistann,“ segir Guðbjörg Jóna en Morgunblaðið tók púlsinn á henni í gær.

„Það gefur mér heilmikið að vera á listanum sem ÍSÍ gaf út. Ég finn að það er mikil hvatning fyrir mig. Þetta sýnir að fólk hefur trú á mér og þá hef ég sjálf meiri trú á því sem ég er að gera. Ég stefni á að komast á Ólympíuleikana, en á næsta ári eru fleiri mót sem ég tek þátt í ef ástandið leyfir. Til dæmis verður EM 23 ára og yngri í Noregi sem ætti að vera stutt og einfalt ferðalag. Við eigum núna öflugar stelpur og við munum reyna að senda sveit í boðhlaup ef hægt er. Gæti verið í 4x100 metra hlaupi og/eða 4x400 metra hlaupi. Ég held að sveitirnar séu svipað sterkar í þessum greinum. Það væri snilld að geta keppt einnig í boðhlaupi þegar maður er búinn að keppa í sinni grein.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert