Íþróttastarf leggst af í bili

Svandís Svavarsdóttir á fundinum í dag.
Svandís Svavarsdóttir á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt íþróttastarf leggst af í bili vegna hertra aðgerða yfirvalda vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti þetta á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar sem nú stendur yfir.

Í máli hennar kom fram að reglur um hertar aðgerðir tækju gildi strax á miðnætti og um yrði að ræða aðgerðir í tvær til þrjár vikur.

Keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu átti að hefjast á ný föstudaginn 6. nóvember og ljúka 30. nóvember en ljóst er að það mun breytast. Handknattleiks- og körfuknattleikssambönd Íslands höfðu þegar frestað allri keppni fram í miðjan nóvember.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að á löngum fundi ríkisstjórnarinnar fyrir hádegið hefði m.a. verið rætt um stuðning við íþróttafélögin í landinu.

Í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands segir að íþróttir séu óheimilar en gert sé ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Hins vegar er tekið fram að ráðherra geti veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlega keppnisleiki.

Á miðvikudaginn kemur á Valur að leika gegn HJK Helsinki í Meistaradeild kvenna í fótbolta á Hlíðarenda og um kvöldið á karlalandsliðið í handbolta að mæta Litháen í Laugardalshöllinni í undankeppni Evrópumótsins. Þeir leikir ættu því að geta farið fram.

mbl.is