Tveir titlar á 16 dögum

Mookie Betts og liðsfélagar hans í Los Angeles Dodgers eru …
Mookie Betts og liðsfélagar hans í Los Angeles Dodgers eru meistarar. AFP

Hafnaboltaliðið Los Angeles Dodgers vann sinn fyrsta meistaratitil í 32 ár eftir sigur á Tampa Bay Rays í svokallaðri „Heimsrimmu“ MLB-deildarinnar á þriðjudagskvöld. Þar með kórónaði liðið Englaborgina sem meistaraborg Bandaríkjanna í ár, en Los Angeles Lakers vann NBA-meistaratitilinn sextán dögum fyrr. Þessi lið endurtóku því söguna með því að vinna meistaratitilinn í sínum deildum, rétt eins og 1988.

Það ár vann Lakers sinn fimmta titil á áratugnum og Dodgers sinn annan. Þetta var tímabil Pat Riley, Magic Johnson og Kareem Abdul-Jabbar hjá Lakers (sá kafli liðsins endaði þegar Johnson fékk alnæmi 1991), og Dodgers virtist ávallt í baráttunni um titilinn í þjóðaríþróttinni.

Þetta eru því góðir dagar fyrir íþróttaunnendur hér í bæ og endurkoma þessara titla hingað til borgarinnar kærkomin íþróttaunnendum nú eftir erfitt ár hér í borg sem og annars staðar.

Af rakettum og kvöldmat

Ég hafði annað augað á lokaleiknum í MLB á þriðjudag í imbanum á meðan kvöldmatur var undirbúinn, en setti leikinn svo á pásu í sjónvarpinu seint í honum á meðan við skötuhjúin hér skammt austur af miðborginni nutum kvöldmatarins. Rétt þegar við vorum að klára hófust miklar rakettusprengingar hérna í austuhluta borgarinnar og þá vissi ég um leið að Dodgers-liðinu hefði tekist að innbyrða sigurinn eftir að hafa tekið forystuna seint í leiknum. Vegna farsóttarinnar í sumar var mun minna um rakettusprengingar hér í bæ á lýðveldisdeginum 4. júlí og því áttu víst margir enn slatta eftir.

Maður fór að heyra þessar sprengingar í borginni eftir sigurleiki Lakers í lokarimmu NBA-deildarinnar og að nýju síðustu daga eftir sigurleiki Dodgers gegn Tampa Bay. Hér í borg rekur stór hluti borgarbúa ættir sína til Mexíkó og það er lenskra margra þeirra að verða sér úti um ólöglegar rakettur og blys sunnan landamæranna til notkunar um áramót og 4. júlí. Þessar vörur eru ólöglegar hér í Kaliforníu vegna hættunnar á íkveikju í kjarri víðsvegar hér í Suður-Kaliforníu, en hér loga nú eldar bæði sunnan og austan borgarinnar.

Þetta stöðvar hinsvegar ekki margan íþróttaeðjótinn hér í bæ þennan mánuð, enda virðist svo sem erfitt að halda aftur af sér eftir langa bið eftir meistaratitlum.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert