Hvað er að gerast hjá Norðmönnum?

Erling Braut Håland fagnar marki, einu sinni sem oftar.
Erling Braut Håland fagnar marki, einu sinni sem oftar. AFP

Svo virðist sem Norðmenn séu að eignast íþróttastjörnur í hinum ýmsu greinum. Nokkrum ólíkum íþróttagreinum. 

Knattspyrnumaðurinn ungi Erling Braut Håland virðist ekki ætla að eyða tímanum til einskis. Virðist honum liggja mikið á að skapa sér nafn í knattspyrnuheiminum. Ekki er nóg með að hann sé orðinn lykilmaður hjá Borussia Dortmund einungis tvítugur að aldri heldur setti hann met á dögunum. Enginn hefur verið fljótari að skora 10 mörk í Meistaradeild Evrópu og tók það Håland aðeins sjö leiki með Salzburg og Dortmund. 

Í fyrstu tíu leikjum sínum í keppninni hefur Norðmaðurinn skorað 12 mörk. Þeim markafjölda hefur engum öðrum tekist að ná. Hér er miðað við þá breytingu sem varð á keppninni árið 1992 þegar riðlakeppni var tekin upp og leikjum fjölgað. 

Hafi menn áhuga á að skoða hve lengi Argentínumaðurinn Lionel Messi og Portúgalinn Cristano Ronaldo voru að ná þeim markafjölda í keppninni þá er þar talsverður munur á. Messi þurfti 25 leiki til að skora 12 mörk í keppninni og Ronaldo 47 leiki. 

Þegar heimsbikarkeppnin í alpagreinum fór af stað á dögunum skaust tvítugur Norðmaður fram á sjónarsviðið, Lucas Bra­at­hen, þegar hann sigraði í stórsvigi. Var það fyrsta keppnin í heimsbikarnum í vetur. Braathen á brasilíska móður og norskan föður en sigur hans vakti mikla athygli.

Norðmenn hafa kynnst velgengni í heimsbikarnum á skíðum en í ljósi þess að Braathen er einungis tvítugur vakti sigurinn en meiri athygli en ella. Kjetil Andre Aamodt, margfaldur heims- og ólympíumeistari, sagði við Nettavisen að sjaldgæft væri að sjá svo ungan mann sigra í heimsbikarnum. Því hafi fylgt gæsahúð frá toppi til táar. 

Lucas Braathen fagnar sigrinum í heimsbikarnum.
Lucas Braathen fagnar sigrinum í heimsbikarnum. AFP



Norðmenn eiga marga framúrskarandi unga íþróttamenn um þessar mundir af einhverjum ástæðum. Ekki þekki ég hversu þekktur Sandor Sagosen er í Noregi en þar sem handknattleikurinn er þekkt íþrótt á Íslandi þá þá vitum við að hann er orðinn einn besti handknattleiksmaður heims, þótt hann sé bara nýorðinn 25 ára. Leikur með Kiel og var áður hjá París St. Germain. Ekki þarf að geta þess sérstaklega að kvennalandslið Noregs í handknattleik hefur verið framúrskarandi um langa hríð. Síðustu árin með Þóri Hergeirsson við stjórnvölinn. Einnig hefur kvennalandslið Noregs í knattspyrnu iðulega verið öflugt.

Sander Sagosen skýtur að marki Íslands á EM í handknattleik. …
Sander Sagosen skýtur að marki Íslands á EM í handknattleik. Hann lék eitt sinn undir stjórn Arons Kristjánssonar hjá Álaborg. AFP


Ekki þarf það að teljast til mikilla tíðinda ef Norðmenn eiga heimsklassa íþróttafólk í skíðagöngu, skíðaskotfimi, alpagreinum eða handknattleik. En það er hins vegar alveg nýtt að Norðmenn eigi öflugan kylfing á PGA-mótaröðinni í golfi. 

Hinn 23 ára gamli Viktor Hovland stendur sig afar vel á PGA-mótaröðinni. 2019-2020 var hans fyrsta tímabil á mótaröðinni og stimplaði Hovland sig inn sem kylfingur sem gæti átt flottan feril í vændum. Komst hann í gegnum niðurskurðinn á þremur risamótum og hafnaði í 12. sæti á opna bandaríska meistaramótinu. Til mikils er að vinna í golfinu og Hovland er farinn að raka inn peningum. Samkvæmt álitsgjöfum og fjölmiðlum þá er einungis tímaspursmál hvenær hann vinnur fleiri mót á mótaröðinni enda er hann í 24. sæti heimslistans. 

Einungis einn Norðurlandabúi hefur unnið eitt risamótanna í golfi í karlaflokki og það er Svíinn Henrik Stenson. Í framtíðinni gæti Hovland einnig afrekað það miðað við hvernig ferill hans hefur þróast. Þekktasti kylfingur Noregs til þessa er væntanlega Suzann Pettersen sem vann tvívegis risamót í kvennaflokki. 

Viktor Hovland horfir á eftir golfboltanum á móti á PGA-mótaröðinni …
Viktor Hovland horfir á eftir golfboltanum á móti á PGA-mótaröðinni í Kaliforníu. AFP

Í þessari samantekt um unga Norðmenn á uppleið í íþróttaheiminum má bæta því við að Karsten Warholm er ekki nema 24 ára. Er hann fyrir löngu orðinn þekktur á hlaupabrautinni enda tvöfaldur heimsmeistari og á Evrópumetið í 400 metra grindahlaupi. Hann er til alls líklegur á Ólympíuleikunum á næsta ári. 

Ekki gerir greinarhöfundur sér grein fyrir því hvort um tilviljun sé að ræða að Norðmenn hafi eignast þessa snjöllu íþróttamenn á sama eða svipuðum tíma. Líklegra finnst mér að kerfisbundnum vinnubrögðum sé um að þakka/kenna. Starfsmenn afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ, Andri Stefánsson og Örvar Ólafsson, hljóta að vera farnir að snuðra í Noregi til að átta sig á hvað veldur. 

Karsten Warholm er tvöfaldur heimsmeistari.
Karsten Warholm er tvöfaldur heimsmeistari. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert