Gamla ljósmyndin: 30 ára gamalt met

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Í vikunni sem leið voru liðin þrjátíu ár frá því Pétur Guðmundsson setti Íslandsmet í kúluvarpi sem enn stendur. Pétur keppti þá fyrir HSK og setti metið á kastmóti Ármanns í Mosfellsbæ 10. nóvember árið 1990. Tókst Pétri að varpa kúlunni 21,26 metra og bætti Íslandsmet Hreins Halldórssonar sem staðið hafði í þrettán ár og var 21,09 metrar. 

Í umfjöllun Vals Jónatanssonar í Morgunblaðinu um afrekið segir jafnframt að besti árangur fram að þessu hjá Pétri utanhúss hafi verið 20,77 metrar. Pétur hafi viku áður slegið Íslandsmet Hreins í greininni innanhúss um sjö sentimetra. „Ég ráðfærði mig við Hrein Halldórsson eftir að ég sló Íslandsmet hans innanhúss. Hann gaf mér góð ráð varðandi stílinn og ég held að það hafi hjálpað mér mikið,“ er haft eftir Pétri í Morgunblaðinu 13. nóvember 1990. 

Á myndinni sjást viðbrögð Péturs eftir að starfsmenn mótsins höfðu staðfest að Íslandsmetið væri fallið. Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði í áratugi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Met Péturs stendur enn eins og áður segir en hann og Hreinn eru einu Íslendingarnir sem kastað hafa kúlu lengra en 21 metra. Kast Péturs var fimmta lengsta kast í heiminum árið 1990. 

Besti árangur Péturs á alþjóðlegum vettvangi kom árið 1994 þegar hann fékk bronsverðlaun í kúluvarpi á EM innanhúss í Frakklandi. 

Pétur hafnaði í 2. sæti í kjörinu um Íþróttamann ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1990 og í 4. sæti árið 1994.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert