Bekkjarseta Ronaldo „mikið áfall“

Aðdáendur Ronaldo urðu fyrir miklu áfalli þegar kappinn kom ekki …
Aðdáendur Ronaldo urðu fyrir miklu áfalli þegar kappinn kom ekki við sögu í leik í Suður-Kóreu í fyrra. AFP

Suðurkóreskur skipuleggjandi var í dag dæmdur til að greiða aðdá­end­um portú­galska knatt­spyrnukapp­ans Cristiano Ronaldo bæt­ur eft­ir að kapp­inn lék ekki mín­útu í vináttu­leik í höfuðborg­inni Seoul á síðasta ári eins og lofað hafði verið.

Ronaldo sat á varamannabekk ítalska liðsins Juventus allan tímann þegar liðið gerði 3:3-jafntefli við úr­valslið suðurkór­esku K-deild­ar­inn­ar í júlí í fyrra.

Reiðir aðdáendur kappans létu vel í sér heyra á vellinum en skipuleggjandinn hafði lofað því að sá portúgalski myndi leika listir sínar á vellinum.

Robin Jang, stjórnanda fyrirtækisins sem sá um skipulagningu leiksins, var gert að greiða þeim 162 sem höfðu lögsótt hann helming miðaverðs. Auk þess var Jang gert að greiða fólkinu 50 þúsund kóresk won, jafnvirði 6.100 íslenskra króna, í skaðabætur. 

Upp­selt varð á leik­inn á þrem­ur mín­út­um en alls voru áhorf­end­ur 65 þúsund. 

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að skipuleggjandinn hefði auglýst leikinn líkt og Ronaldo myndi spila og því væri fjarvera Ronaldo frá vellinum að hluta til á hans ábyrgð.

Aðdáendur sem bjuggust við að sjá Ronaldo á vellinum urðu fyrir „miklu áfalli“ að sögn dómarans.

Áður hafði dómstóll í landinu gert skipuleggjandanum að greiða tveimur aðdáendum Ronaldo bætur vegna sömu brota.

mbl.is