Gamla ljósmyndin: Rimman við Kahn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Þessu atviki sem sjá má á myndinni muna líklega margir eftir. Þá lenti sóknarmanninum Heiðari Helgusyni og þýska markverðinum Oliver Kahn saman í leik Íslands og Þýskalands á Laugardalsvelli í september árið 2003. 

Myndin birtist í Morgunblaðinu hinn 8. september 2003 og hana tók Kristinn Ingvarsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Í myndatexta blaðsins er skrifað: „Heiðar Helguson, framherji Íslands, lenti í snarpri orðasennu við fyrirliða og markvörð þýska landsliðsins, Oliver Kahn, í síðari hálfleik og bar alls enga virðingu fyrir markverðinum snjalla.“

Leikurinn var afar mikilvægur og var liður í undankeppni EM 2004. Langt var liðið á undankeppnina og Ísland átti möguleika á að komast í lokakeppni í fyrsta skipti. Hið sterka lið Þjóðverja lenti í miklu basli á Laugardalsvellinum og mönnum var heitt í hamsi enda mikið undir. Liðin þurftu að sættast á markalaust jafntefli en Þýskaland hafnaði í efsta sæti riðilsins. 

Heiðar var afar baráttuglaður á velli og gekk oft harkalega fram þegar hann var nærri marki andstæðinganna. Margir markverðir kvörtuðu undan leikstílnum og ef til vill var einungis tímaspursmál hvenær skaphundinum Oliver Kahn yrði misboðið. Morgunblaðið spurði Heiðar á sínum tíma út í atvikið þegar honum og Kahn lenti saman.

„Já, hann var eitthvað æstur yfir því að ég pressaði hann of stíft. Kahn virðist vera voðalega pirruð týpa og það þarf lítið að gera til þess að hann verði reiður. Ég er nú ekkert voðalega góður í þýskunni og skildi ekki alveg hvað hann var að segja við mig en ætli hann hafi ekki verið að senda mér blótsyrði,“ sagði Heiðar sjálfur um atvikið. 

Heiðar Helguson lék 55 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 12 mörk. 

Heiðar hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2011. 

mbl.is