Afreksíþróttafólk fær undanþágu til æfinga

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ.
Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afreksíþróttafólk sem undirbýr sig fyrir keppni á alþjóðlegum mótum hefur fengið undanþágu til þess að æfa. Íþróttasamband Íslands, ÍSÍ, fékk undanþáguna frá sóttvarnalækni í dag. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Þar var rætt við Lárus Blöndal, forseta ÍSÍ, sem sagðist gera ráð fyrir því að undanþágan ætti við afreksíþróttafólk í einstaklingsgreinum sem undirbýr sig fyrir alþjóðleg mót.

Einnig ætti undanþágan við um þá handboltamenn sem spila hér á landi og voru valdir í 35 manna æfingahóp handboltalandsliðs karla fyrir HM í Egyptalandi, sem hefst í janúar á næsta ári.

Enn mega þó aðrir fullorðnir iðkendur handbolta og körfubolta ekki æfa. „Þetta er alla vega viðleitni og er bara jákvætt að geta komið þessu áfram. En hins vegar er verið að horfa til þess að menn geti stundað þessar liðsíþróttir hérna til að geta verið samkeppnishæfir á alþjóðlegum mótum á næsta ári. Það vonandi styttist í að það verði hægt,“ sagði Lárus í samtali við RÚV.

Kvaðst hann hafa lagt áherslu á það á fundi með sóttvarnalækni og almannavörnum í dag að það yrði að koma æfingum og keppni þessa eldri hluta aftur í gang. Ef það tækist ekki þyrfti í það minnsta að ná til ungmenna á framhaldsskólaaldri. „Ég tel að það sé mjög mikilvægt og geri alveg ráð fyrir því og veit að sóttvarnayfirvöld eru jákvæð fyrir því að reyna eins og hægt er,“ sagði Lárus.

mbl.is