Gamla ljósmyndin: Naglalakkið

Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Sundmaðurinn Örn Arnarson vakti um tíma athygli fyrir að keppa með lakkaðar neglur en Örn var mjög áberandi í kringum aldamótin 2000 enda mikill afreksmaður. 

Örn keppti fyrst með lakkaðar neglur árið 1997. Hann hélt sig við það á stórum mótum og úr varð einhvers konar hjátrú hjá honum. 

Myndina tók Sverrir Vilhelmsson á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu árið 2000 en Sverrir myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi. Á myndinni sést lakkið vel en Örn bragðar þarna á vatninu í ólympíulauginni áður en hann stakk sér til sunds í 200 metra baksundinu, sinni sterkustu grein. 

Á leikunum í Sydney náð Örn bestum árangri sem íslenskur sundmaður hefur náð á Ólympíuleikum þegar hann hafnaði í 4. sæti í 200 metra baksundi en hann keppti einnig á Ólympíuleikunum 2004 og 2008. 

Afrekaskrá Arnar er of löng til að hægt sé að tína allt til hér. En sé farið yfir það helsta þá varð hann Evrópumeistari í 25 metra laug, fyrstur Íslendinga. Vann hann til tíu verðlauna á EM í 25 metra laug á keppnisferlinum og þar af voru sex gullverðlaun. Hann vann til silfur- og bronsverðlauna á HM í 50 metra laug árið 2001. Örn varð þriðji íslenski sundmaðurinn til að setja Norðurlandamet. 

Örn hlaut þrívegis sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. 1998, 1999 og 2001. 

Örn sneri sér að þjálfun eftir að keppnisferlinum lauk og starfar í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert