Gamla ljósmyndin: Djarft teflt

Reuters

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á þessum árstíma, kömmu fyrir jól, árið 1999 náði Kristinn Björnsson frá Ólafsfirði frábærum árangri á heimsbikarmóti í Kranjska Gora í Slóveníu. Keppt var í svigi, bestu grein Kristins, og hafnaði hann í 4. sæti. Það sem er enn merkilegra er að enginn skíðaði betur í síðari ferðinni en í heimsbikarnum eru bestu skíðamenn heimsins hverju sinni komnir saman. 

Ljósmyndari Reuters-fréttaveitunnar tók þessa mynd af Kristni þar sem hann geystist niður í seinni ferðinni og tók forystuna í keppninni. Henni hélt hann þar til fjórir skíðamenn voru eftir í síðari ferðinni. Var það nánast með ólíkindum því Kristinn var í 29. sæti eftir fyrri ferðina en gefur einnig mynd af því hversu vel hann skíðaði í síðari ferðinni. 

Myndin birtist á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins daginn eftir, hinn 22. desember 1999, í fjórdálki ásamt ítarlegri umfjöllun. 

„Ég bjóst alltaf við að einhverjir færu framúr mér. Ég varð því undrandi, því það velti mér enginn fljótlega úr sessi. Ég gerði mér engar sérstakar vonir eftir það. Ég var fyrst og fremst ánægður með það sem ég hafði gert. Það er geysilega ánægjulegt að hafa náð þessu. Þetta kom mér gersamlega á óvart,“ sagði Kristinn meðal annars í samtali við Edwin Rögnvaldsson sem rakti úr honum garnirnar fyrir blaðið.

Þegar upp var staðið var gerði þessi frábæra ferð það að verkum að frammistaðan í Slóveníu var þriðji besti árangur Kristins í heimsbikarnum á ferlinum. Hápunktur ferilsins var þegar hann vann til silfurverðlauna á heimsbikarmótum í svigi í Park City í Bandaríkjunum 1997 og í Veysonnaz í Austurríki 1998. Ótrúleg afrek sem enginn annar íslenskur skíðamaður hefur verið nálægt því að leika eftir. 

Kristinn þótti gjarnan tefla djarft í keppni og hefur oft verið lýst á þann veg að hann hafi lagt allt undir í keppni. Niðurstaðan var sú að hann keyrði oft út úr brautinni en þegar honum tókst vel upp gat hann keppt við bestu skíðamenn heims í sviginu. Ekki fór á milli mála að Kristinn gat skíðað jafn hratt í svigi og þeir bestu. 

Kristinn hafnaði á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna fimm ár í röð, frá 1995-1999. Árið 1997 hafnaði hann í 3. sæti í kjörinu. 

Kristinn er í dag búsettur í Noregi en hann sneri sér að þjálfun eftir að keppnisferlinum lauk.

mbl.is