Best á Akranesi – sautján Íslandsmet á öðru ári í nýrri íþrótt

Kristín Þórhallsdóttir fyrir miðju með glæsilegan farandbikar sem fylgir nafnbótinni.
Kristín Þórhallsdóttir fyrir miðju með glæsilegan farandbikar sem fylgir nafnbótinni. Ljósmynd/Skagafréttir

Kraftlyftingakonan Kristín Þórhallsdóttir var á dögunum útnefnd íþróttamaður ársins 2020 á Akranesi eftir að hafa náð glæsilegum árangri í klassískum kraftlyftingum á síðasta ári.

Þar setti hún sautján Íslandsmet, aðeins ári eftir að hún fór að æfa íþróttina, en Kristín, sem er 36 ára gömul, var áður öflug frjálsíþróttakona og æfði þar og keppti í fimmtán ár.

Hún er í dag efst á styrkleikalista Evrópu i klassískum kraftlyftingum í -84kg flokki kvenna en vegna útbreiðslu kórónuveirunnar varð ekkert af því að hún keppti á stórmótum erlendis á síðasta ári.

Jakob Svavar Sigurðsson hestaíþróttamaður varð annar í kjörinu og fimleikakonan Guðrún Julianne Unnarsdóttir varð þriðja.

Kristín var líka heiðruð í kjörinu á besta íþróttafólki Borgarfjarðar á árinu 2020 en þar varð hún í öðru sæti á eftir Íslandsmeistaranum í golfi, Bjarka Péturssyni. Ástæðan er sú að Kristín býr á Laugalandi í Borgarfirði og starfar þar sem dýralæknir.

Skagafréttir fjalla nánar um kjörið á Kristínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert