Samdi við eitt besta lið Evrópu

Stefán Númi Stefánsson er að gera góða hluti í ameríska …
Stefán Númi Stefánsson er að gera góða hluti í ameríska fótboltanum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er gríðarlegt stökk. Þetta er önnur besta deildin í heimi og annað besta liðið í Evrópu, svo þetta er töluvert stærra en ég er vanur í dönsku og spænsku deildinni,“ sagði Stefán Númi Stefánsson, atvinnumaður í amerískum fótbolta eða ruðningi, í samtali við mbl.is.

Stefán gerði á dögunum samning við Swarco Raiders Tirol frá Austurríki en liðið hefur í þrígang orðið Evrópumeistari og fimm sinnum austurrískur meistari síðasta áratuginn en austurríska deildin er sú næststerkasta í Evrópu á eftir þeirri þýsku. Stefán hefur undanfarið ár leikið með Aarhus Tigers í Danmörku og Mallorca Voltors á Spáni, en hvernig komst hann að hjá einu sterkasta liði Evrópu?

„Það var njósnari hjá þeim sem hafði samband við mig eftir að hafa séð myndband af mér. Hann kom mér í samband við þjálfarann og eftir það gekk þetta hratt fyrir sig,“ sagði Stefán. Hann fór til Mallorca frá Aarhus á síðasta ári, en gat lítið spilað vegna kórónuveirunnar og hélt hann því aftur til Danmerkur þar sem sagan var sú sama. „Ég náði að spila fimm leiki á Spáni en svo var tímabilinu hætt. Ég fór því aftur til Danmerkur en þá náði ég því miður bara fjórum leikjum. Það var hætt við tímabilið áður en úrslitakeppnin fór af stað,“ sagði hann.

Stefán í leik með Mallorca Voltors á Spáni.
Stefán í leik með Mallorca Voltors á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Stefán gerði samning út tímabilið í Austurríki og verður þar til sumarloka „Samningurinn gildir út tímabilið og ég fæ að vita fljótlega hvenær ég flýg út til þeirra. Tímabilið er til júlíloka eða byrjun ágúst og svo kemur í ljós hvað gerist eftir það. Þetta er mjög stórt félag og mætti bera það saman við lið í Meistaradeildinni í venjulegum fótbolta. Þeir hafa verið að spila við þá bestu og eru margfaldir Evrópumeistarar.“

Skemmtilegast að búa til pönnukökur

Stefán Númi er svokallaður hægri tæklari, „right tackle“, en hans hlutverk er að verja leikstjórnandann frá varnarmönnum andstæðinganna. Hann vinnur því erfiðisvinnu en fær sjaldan fyrirsagnirnar. „Ég læt ljós mitt skína með því að sýna að ég er að gera mína vinnu og með því að yfirbuga andstæðinginn. Með því næ ég að opna möguleika fyrir liðsfélagana. Því minna sem er talað um sóknarlínuna því betur stendur hún sig,“ sagði hann. Ekki er til tölfræði um stöðu Stefáns líkt og er hjá leikstjórnendum, hlaupurum og fleiri leikmönnum. „Því miður er það ekki enn þá en ég næ að láta vita af mér með því að búa til pönnukökur, eða að henda mínum manni niður á jörðina og kasta mér á hann, það er það skemmtilegasta sem ég geri,“ sagði hann hlæjandi.

Sóknarlínumaðurinn stóri og stæðilegi er með háleit markmið en hann ætlar sér að verða fyrsti Íslendingurinn til að spila í NFL-deldinni í Bandaríkjunum, þeirri langsterkustu í heimi. „Þetta er algjörlega skref í áttina að því. Það var einn leikmaður sem fór frá þessu liði og til New York Giants í NFL-deildinni á síðasta ári. Þeir voru nýlega með njósnara í Innsbruck þar sem félagið er staðsett. Augun eru því á þessu liði og öðrum stórliðum í Evrópu. NFL-liðin eru farin að fylgjast betur með Evrópu.“

Stefán er stór og stæðilegur sóknarlínumaður.
Stefán er stór og stæðilegur sóknarlínumaður. Ljósmynd/Aðsend

Uppgangur Stefáns í íþróttinni hefur verið hraður en hann fékk sinn fyrsta samning í Danmörku árið 2018. „Ég finn að ég er enn að bæta mig og bæta mig hratt. Vegna meiðsla spilaði ég þrjár stöður á síðasta tímabili, ásamt því að spila „right tackle“ spilaði ég líka í miðjunni og vinstra megin. Við það fékk ég betri leikskilning og ég hef bætt mig mikið,“ sagði Stefán Númi Stefánsson.

Svipmyndir af sóknarlínutilþrifum Stefáns má sjá í myndskeiðinu hér fyrir neðan. Þá geta áhugasamir fylgt honum á Instagram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert