21 ár á milli titla

Ágústa Edda Björnsdóttir, íþróttakona Garðabæjar 2020.
Ágústa Edda Björnsdóttir, íþróttakona Garðabæjar 2020.

Ágústa Edda Björnsdóttir, 43 ára gömul afreksíþróttakona og hjólreiðakona í Tindi, segist aldrei hafa komist í betra form en síðasta sumar.

Með góðri skipulagningu og góðri hjálp er að mati Ágústu alveg hægt að halda áfram að stunda íþróttir af krafti þó svo maður eigi börn. Þá skipti fyrirmyndir miklu máli. 

Ágústa var á dögunum valin íþróttakona Garðabæjar árið 2020. Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður, var auk þess valinn íþróttamaður ársins í annað sinn.  

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ágústa hefur verið valin íþróttakona bæjarfélags en Ágústa var valin íþróttakona Seltjarnarness árið 1999, en þá var hún í handbolta. Hefur hún því hlotið álíka titla með 21 árs millibili. 

Ágústa Edda Björnsdóttir og Guðjón Valur Sigurðsson, íþróttamenn Seltjarnarness 1999.
Ágústa Edda Björnsdóttir og Guðjón Valur Sigurðsson, íþróttamenn Seltjarnarness 1999.

Þegar mbl.is náði fyrst tali af Ágústu Eddu var hún að sjálfsögðu á hjólinu á leið á æfingu. 

Að sögn Ágústu byrjaði hún að æfa hjólreiðar af viti fyrir um fimm árum síðan en eiginmaður Ágústu hafði gefið henni hjól og síðan fór boltinn að rúlla. Hún hélt að henni þætti hundleiðinlegt að hjóla því henni þótti spinning alltaf svo leiðinlegt. 

„Svo fór ég bara á bólakaf á svona einum, tveimur árum og hef aldrei æft jafn mikið á ævi minni,“ sagði Ágústa í samtali við mbl.is 

Segir á vef Garðabæjar að Ágústa hafi orðið Íslandsmeistari í götuhjólreiðum síðustu þrjú ár og bikarmeistari í götuhjólreiðum síðustu þrjú af fjórum árum. Auk þess hefur hún verið valin hjólreiðakona ársins undanfarin 3 ár. Þar að auki var Ágústa Edda fyrst Íslendinga til að keppa á HM í götuhjólreiðum 2019 en hún keppti einnig á því móti árið 2020. 

Ágústa Edda Björnsdóttir fyrst Íslendinga til að taka þátt á …
Ágústa Edda Björnsdóttir fyrst Íslendinga til að taka þátt á heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. mbl.is/​Hari

Konur geta verið afreksíþróttamenn lengur en þær halda 

í Facebook pistli frá Ágústu kemur fram að hún voni að hún hafi sýnt fram á að konur geti verið afreksíþróttamenn lengur en þær flestar halda, ef þær svo kjósa 

Í samtali við mbl.is benti Ágústa á að eðlilega taki það tíma að snúa til baka í íþróttir eftir barneignir en þó sé alveg hægt að snúa til baka þegar börnin hafa náð vissum aldri.  

„Ég svo sem var heppin. Það gekk alltaf allt rosa vel hjá mér. Ég byrjaði fljótt aftur í hreyfingu. Með góðri skipulagningu og góðri hjálp þá var ég mjög fljót að komast í gott form aftur,” sagði Ágústa. 

Ágústa segir ástæðuna fyrir því hvað hún hafi lengi haldist í íþróttunum vera hvað hún hafi gaman af þeim og nefnir hún líka félagsskapinn.

„Manni finnst svo gaman að æfa af því maður tilheyrir einhverjum hópi og núna í hjólreiðunum æfi ég reyndar líka ein og það er ákveðið me-time og ákveðin núvitund stundum að vera bara einn en ég væri aldrei í þessu af þessum krafti nema það væri einhver skemmtilegur og góður félagsskapur í þessu.“ 

Í sínu besta formi 43 ára 

Ágústa bendir á að íþróttafólk geti haldið sér í toppformi miklu lengur en áður því við vitum miklu meira hvernig á að passa upp á líkamann og sömuleiðis hafi bæði æfingatækni og þjálfunartækni breyst.  

„En líka bara að þó svo maður sé kominn með þrjú börn eru einhvern veginn margir sem að halda að þá sé bara íþróttaferillinn búinn en það þarf ekkert að vera þannig. Ef maður er með góðan stuðning og skipuleggur sig vel þá er alveg hægt að halda áfram lengur,“ sagði Ágústa. 

„Ég er orðin 43 ára gömul og komst, að mínu mati, í mitt besta form síðasta sumar.“ 

Ferillinn ekki búinn eftir barneignir 

Ágústa bendir á að þegar hún var að æfa handbolta hjá Val hafi félagið boðið upp á barnapössun, nokkur skipti í viku, meðan á æfingum stóð.  

„Þetta hafði rosalega mikið að segja að maður fékk þennan stuðning. Að maður gat tekið barnið með sér. Þýddi minni fjarvist og minna álag á alla aðra í kringum mann. Ég hef heyrt að þetta sé komið inn í fleiri félög og svo þegar smám saman þær fyrirmyndir eru áberandi þá sjá yngri stelpur og konur að ferillinn er ekkert endilega búinn þó maður sé kominn með eitt barn eða tvö eða þrjú eða hvað það er.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert