Arnar og Karen best í Kópavogi

Arnar Pétursson og Karen Sif Ársælsdóttir voru verðlaunuð í dag.
Arnar Pétursson og Karen Sif Ársælsdóttir voru verðlaunuð í dag. Ljósmynd/Kópavogsbær

Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður úr Breiðabliki og Karen Sif Ársælsdóttir frjálsíþróttakona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2020.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum í dag. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Arnar og Karen Sif voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Arnar Pétursson

Arnar gekk til liðs við uppeldisfélagið sitt Breiðablik í upphafi árs og vann alls sex Íslandsmeistaratitla á nýliðnu ári bæði í götuhlaupum og  langhlaupum á braut. Hann hefur verið einn besti maraþonhlaupari landsins undanfarin ár og stefnir nú ótrauður á ólympíulágmark í maraþoni fyrir komandi Ólympíuleika í Tókýó.

Karen Sif Ársælsdóttir

Karen Sif Ársælsdóttir er frjálsíþróttakona ársins 2020 hjá Breiðabliki. Hún er Íslands- og bikarmeistari kvenna í stangarstökki bæði innan- og utanhúss. Karen hefur verið einstaklega sigursæl í sinni grein í ár og  hefur ekki tapað keppni í stangarstökki á árinu. Karen var nýlega valin í A- landsliðið í frjálsum íþróttum fyrir árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert