Rússarnir í Washington í sóttkví

Dmitry Orlov, Alex Ovechkin og Evgeny Kuznetsov fagna sigrinum í …
Dmitry Orlov, Alex Ovechkin og Evgeny Kuznetsov fagna sigrinum í NHL árið 2018. AFP

Alex Ovechkin, einn þekktasti íþróttamaður Rússa, er kominn í sóttkví sem og þrír aðrir liðsfélagar hans hjá bandaríska íshokkíliðinu Washington Capitals.  

Washington Post greindi frá þessu en Ovechkin, Evgeni Kuznetsov, Dmitry Orlov og Ilya Samsonov eru einnig smitaðir. Allir eru þeir Rússar en rússneska landsliðið er eitt það sterkasta í heimi og margir landsliðsmenn Rússa leika í amerísku NHL-deildinni. 

Samkvæmt Washington Post þá brutu leikmennirnir sóttvarnarreglur á ferðalagi Washington Capitals. Fóru þeir ógætilega á hótelinu þar sem liðið gisti og notuðu ekki grímur. NHL-deildin hefur staðfest þetta og er broti sem þessu er ekki tekið af léttúð því félagið var sektað af NHL-deildinni um liðlega 13 milljónir króna. 

Ekki hefur komið fram í fréttaflutningi hvort einhverjir fjórmenningana hafi greinst með veiruna. Ovechkin hefur sent frá sér yfirlýsingu og beðist afsökunar. Þá harmar Washington Capitals uppákomuna og lætur þess getið í yfirlýsingu að starfsmenn félagsins hafi lagt á sig mikla vinnu svo liðið gæti hafið keppni á keppnistímabilinu með tilheyrandi sóttvarnarráðstöfunum. 

Ovechkin er einn frægasti íshokkíleikmaður heims síðasta áratuginn og er sjöundi markahæsti leikmaður í sögu NHL. Ovechkin, Orlov og Kuznetsov hafi bæði orðið heimsmeistarar með Rússum sem og NHL-meistarar með Washington. Samsonov er hins vegar skammt á veg kominn á sínum ferli og er 23 ára gamall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert