Hjólaði eina af hverjum níu klst. ársins

Ingvar Ómarsson er hér á leiðinni á milli Akureyrar og …
Ingvar Ómarsson er hér á leiðinni á milli Akureyrar og Húsavíkur í Skjálfandamótinu. Ljósmynd/Hörður Ragnarsson

Í fyrra var hjólreiðamaðurinn Ingvar Ómarsson að meðaltali hjólandi í tæplega eina af hverjum níu klukkustundum ársins, eða samtals í 942 klukkustundir. Nemur það rúmlega 40 sólarhringum. Á þessum tíma hjólaði hann 25.562 kílómetra, en það jafngildir því að fara rúmlega 19 sinnum hringveginn, eða í beinni línu frá Reykjavík á Suðurpólinn og svo aftur upp að ströndum Namibíu.

Árið litaðist eins og margt annað af faraldrinum og féllu niður flest erlendu mótin sem Ingvar hafði ætlað að taka þátt í. Hann er þó bjartsýnn með þetta ár og stefnir á fjölda keppna erlendis, en Ingvar er að taka strangasta æfingatímabil sitt frá upphafi. Í samtali við mbl.is fer Ingvar yfir áskoranir í kringum faraldurinn og hvernig augum hann líti þetta ár.

„Fyrri hluti sumarsins þurrkaðist út“

Það má segja að Ingvar sé alhliða keppnismaður í hjólreiðum, en þótt hans helsta grein hafi undanfarin ár verið ólympískar fjallahjólreiðar hefur hann einnig keppt talsvert erlendis í maraþonfjallahjólreiðum. Þá hefur hann einnig verið framarlega í götuhjólreiðum hér á landi og síðustu ár komið inn í tímatöku. Í fyrra tók hann meðal annars þátt í heimsmeistaramótinu bæði í fjallahjólreiðum og tímatöku og heimsbikarmótum í fjallahjólreiðum.

Í fyrra byrjaði Ingvar keppnisárið snemma með keppnisferð til Grikklands. Í mars var svo planið að taka æfingaferð á Spáni og síðar keppnisferð til Belgíu og Bretlands. Ekkert varð af þeim plönum þar sem ferðatakmarkanir tóku gildi daginn sem hann átti að fara út til Spánar. „Fyrri hluti sumarsins þurrkaðist út,“ segir Ingvar. Raunar átti það við allar erlendar keppnir fram í ágúst.

„Þetta getur verið smá eins og spilaborg“

„Maður reyndi að vera rólegur, en það gerðist alveg að ég varð stressaður yfir minni stöðu. Í einfaldri mynd þá var ég ekki að mæta í vinnuna,“ segir Ingvar um þá stöðu sem var komin upp, en hann er með fjölda styrktaraðila til að standa straum af keppnum erlendis, en á móti er gert ráð fyrir að hann sé einmitt sýnilegur og nái árangri, líkt og við á um fjölda íþróttamanna í mismunandi greinum.

„Ef eitthvað klikkar getur margt annað klikkað á sama tíma og þetta getur verið smá eins og spilaborg,“ segir hann og bætir við að hann hafi strax farið að hugsa hvernig hann gæti látið árið ganga upp þannig að árið 2021 myndi líka ganga upp fyrir hann. „Ég vildi ekki enda ferilinn þarna,“ segir hann.

Aðalgrein Ingvars hefur undanfarin ár verið ólympískar fjallahjólreiðar, en hann …
Aðalgrein Ingvars hefur undanfarin ár verið ólympískar fjallahjólreiðar, en hann hefur þó í auknum mæli fært sig yfir í maraþonfjallahjólreiðar. Ljósmynd/Hörður Ragnarsson

Rættist ágætlega úr síðasta tímabili

Árið endaði hins vegar ekki eins illa og margir höfðu gert ráð fyrir. Í fyrsta lagi var íslenska keppnissumarið mjög þétt og þá tókst Ingvari að fara út í lok sumars og um haustið, en erlendis var keppnistímabilinu í raun troðið á ágúst fram í október, meðan venjan er að tímabilið byrji snemma vors og vari fram í september eða byrjun október.

Var Ingvar meðal annars einn af fimm keppendum sem fóru frá Íslandi á heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum sem fram fór á Ítalíu. Þar keppti hann í tímatöku eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í greininni. Þá tók hann einnig þátt í tveimur heimsbikarmótum í fjallahjólreiðum og fór á heimsmeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum.

Metnaðurinn byggist aftur upp í gegnum hvíldina

Venjulega klárast tímabilið hjá Ingvari í september, en í þetta skiptið var það ekki fyrr en um miðjan október. Venja hjá flestum hjólurum er að taka hvíldartímabil eftir keppnistímabilið áður en æfingatímabil hefst á ný. Oft er horft til þess að taka heilan mánuð, þar sem skipulagðar æfingar eru settar á hilluna, þótt margir haldi áfram að hreyfa sig eitthvað á hjólinu til að njóta.

Ingvar segir að í þessu ástandi hafi hann bara tekið tveggja vikna hvíld til að slá ekki æfingatímabilinu of mikið á frest. „Aðalatriðið er að fá frelsi og gefa sér frí frá öllu ruglinu sem fylgir keppnistímabilinu,“ segir Ingvar og nefnir bæði krefjandi æfingar, keppnir og skipulag í kringum keppnir og keppnisferðalög. „Maður tekur þessu svo alvarlega að þetta er ekki bara hobbí á þessu stigi,“ segir hann.

„Fyrstu dagarnir eru mjög erfiðir og maður þarf að minna sig á að hugsa ekki um sportið. Það er erfitt að segja sjálfum sér að fara ekki út að hjóla, en eftir 1-2 vikur þá fer metnaðurinn að byggjast upp aftur og spenna að myndast. Í gegnum hvíldina og fríið verður metnaðurinn til sem lætur mann halda áfram. Maður er að taka dýfu niður til að taka stökkið upp aftur,“ segir Ingvar þegar hann lýsir áhrifum af hvíldartímabilinu. Bendir hann á að í hjólreiðum og mörgum öðrum íþróttum sé horft til þess að „toppa“ á réttum tíma og því þurfi æfingaálag og fleira að taka mið af því, en ekki megi þó gleyma að það sem fer upp þurfi að koma aftur niður og það eigi við um æfingaálagið líka.

Í hvíld en hjólaði samt í 2,5 klst. á dag

Eftir síðasta mótið 14. október var sem sagt komið að hvíldinni og segir Ingvar að hann líti á það sem hvíld ef ekki sé um æfingu að ræða. Eins og blaðamaður komst að á hvíldin sem Ingvar talar um lítið sameiginlegt með hvíld fyrir flesta aðra. „Ég yrði eirðarlaus og óþolandi ef ég myndi alveg hætta,“ segir hann hlæjandi og bætir við að í grunninn séu hjólreiðar áhugamál hjá honum, þótt hann hafi í dag atvinnu af þessu. Á hvíldartímabilinu sem náði til 1. nóvember hjólaði Ingvar í um 2,5 klukkustundir á hverjum degi auk þess að fara aðeins út að hlaupa. Segist hann hafa notað tímann til að fjallahjólast úti á landi og ferðast og skoða staði frekar en að hugsa um að ná sem bestum tíma eða hraða.

Fram undan er áframhaldandi óvissa varðandi komandi keppnistímabil. Þó hafi ágætisfargi verið af honum létt þegar ljóst varð að aðalstuðningsaðili hans, Novator, vildi framlengja samning við hann og þá er hann einnig áfram með samning við Örninn. Ingvar segir að í þessu árferði hafi hins vegar orðið samdráttur þegar komi að minni stuðningsaðilum og hann finni alveg fyrir því. Það eigi sérstaklega við þá sem séu utan við hjólamarkaðinn sjálfan. „Ég mun finna leið til að gera þetta hvernig sem fer, en þetta gæti þó orðið erfiðara en undanfarin ár,“ segir Ingvar, en aðspurður segist hann þrátt fyrir góðan stuðning undanfarin ár hafa þurft að borga með æfingum og keppnisstandi.

Ingvar í crit-keppni á Völlunum í Hafnarfirði í fyrra.
Ingvar í crit-keppni á Völlunum í Hafnarfirði í fyrra. Ljósmynd/Hörður Ragnarsson

Líklegt að tímabilið færist aftur aftar

Ingvar segist vonast til að geta byrjað í apríl með ferð til Skotlands, en að það sé þó ekki forgangsatriði. Þá sé líka sex daga fjallahjólakeppni á Spáni seinni hlutann í apríl sem hann hafi þrisvar áður tekið þátt í. Í maí sé síðan fjögurra daga keppni í Belgíu sem sé ofarlega á listanum. Faraldurinn og ferðatakmarkanir verði þó að ráða því hvernig þetta fari.

„Ég tel líkur á að einhver af fyrstu mótunum verði felld niður og að tímabilið byrji ekki fyrr en um mitt sumar,“ segir Ingvar. Hingað til hefur hann reynt að taka keppnistímabilið hér heima í júní og júlí, þegar smá hlé er erlendis út landsmótum og Frakklandshjólreiðunum sem virðast ryðja öðrum mótum til hliðar, bæði í fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum. Hann segir að ef tímabilið erlendis færist yfir á mitt sumarið muni hann því mögulega missa af einhverjum hluta hér á landi.

Útilokar ekki frekari þátttöku í götuhjólreiðum

Ingvar hefur síðustu ár verið að færa sig meira úr ólympískum fjallahjólreiðum í maraþonfjallahjólreiðar, en hann segist einnig hafa fengið aukinn áhuga á götuhjólreiðum og tímatöku í fyrra. Útilokar hann ekki að reyna að taka þátt í slíkum mótum erlendis á næstunni og segist sérstaklega spenntur fyrir keppnum á hellusteinum, eins og verður líklega á heimsmeistaramótinu í Belgíu í ár.

Mánaðarskammtur á þremur dögum

Fyrir þetta æfingatímabil ákvað Ingvar að gera stóra breytingu. Hingað til hefur hann sjálfur séð um að þjálfa sig og setja saman æfingaplön. Nú ákvað hann hins vegar að fá sér bandarískan þjálfara. „Ég var að gera sjúklega erfiðar æfingar síðasta vetur og ég taldi margt gott og frábært og sá ekki fram á hvernig ég gæti gert betur. Því ákvað ég að prófa að finna einhvern sem segir mér að gera meira en ég held að ég geti,“ segir Ingvar og bætir við að hann hafi sjaldan verið eins þreyttur og í nokkrum af æfingavikunum undanfarið.

Þannig nefnir hann meðal annars að síðasta vika hafi verið hvíld á mánudag, fimm klukkustunda grunnæfing á þriðjudegi, rólegur klukkutími á miðvikudegi, en svo næstu þrjá daga var tvisvar sinnum tvær klukkustundir alla dagana. Önnur æfing í hádeginu og sú síðari að kvöldi og voru þær allar miklar áreynsluæfingar, svokallaðar „VO2 MAX“-æfingar þar sem 40 mínútur af 120 voru í því hámarki. „Ég fékk alveg mánaðarskammtinn af þessum æfingum á þremur dögum,“ segir Ingvar.

Náði ekki að borða nægjanlega mikið í erfiðum vikum

„Þetta var bara borða, æfa, liggja á sófanum, borða, sófinn aftur, borða, hjóla, borða og sofa,“ segir Ingvar um þessa daga. Í raun hafi aðalvandamálið þarna verið að hann náði ekki að borða nógu mikið, en hann þurfti 6-7 máltíðir á dag til að koma nægjanlega miklu af kaloríum í líkamann. Segir hann að þetta sé samt það sem hann hafi verið að leita að. „Ég er undir miklu meira álagi en ég hefði gert, ég hefði aldrei lagt svona strangt prógramm fyrir sjálfan mig,“ segir Ingvar og bætir við að hann sé bjartsýnn á að þetta muni skila honum enn lengra á komandi keppnistímabili en áður. Þess ber þó að geta að enn er eftir erfiðasti og mest krefjandi hluti æfingatímabilsins í febrúar fram í apríl, en Ingvar segir að þá verði mesta ákefðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert