Gamla ljósmyndin: Besti árangur í 36 ár

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sigurður Einarsson úr Ármanni náði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 þegar hann hafnaði í 5. sæti í spjótkasti. Sigurður kastaði 80,34 metra. 

Meðfylgjandi mynd tók Ragnar Axelsson eða RAX sem myndaði fyrir Morgunblaðið á Ólympíuleikunum í Barcelona. Á myndinni sést Sigurður búa sig undir að senda spjótið langleiðina yfir grasflötinn á ólympíuleikvanginum sem staðsettur er á hæðinni fyrir ofan borgina sem svo margir Íslendingar hafa heimsótt. Einbeitingin leynir sér ekki. 

Árangur Sigurðar var sá besti hjá íslensku frjálsíþróttafólki frá því Vilhjálmur Einarsson nældi í ólympíuverðlaunin í Melbourne árið 1956. Vala Flosadóttir fékk bronsverðlaun í Sydney árið 2000 og eru þau eina íslenska frjálsíþróttafólkið sem hafnað hefur ofar en Sigurður á Ólympíuleikum. Þórey Edda Elísdóttir jafnaði árangur Sigurðar á leikunum í Aþenu árið 2004. 

Sigurður náði fínu kasti í fyrstu umferð og var þá strax orðinn þriðji í keppninni. Skapti Hallgrímsson fjallaði um leikana í Barcelona fyrir Morgunblaðið og spurði Sigurð hvað hefði farið í gegnum hugann eftir fyrstu umferðina.

„Ég bjóst við því að þeir færu nokkrir fram úr mér. Ég var ekki orðinn ánægður með neitt, langt frá því. En ég er þokkalega ánægður núna. Þetta er það besta sem ég hef gert, betra en ég gerði í fyrra. Þetta eru náttúrulega Ólympíuleikar og einu sæti betra [en á HM í fyrra],“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið hinn 11. ágúst árið 1992 en hann hafði hafnað í 6. sæti á HM árið 1991 eða ári áður eins og hann vísar til. 

Sigurður Einarsson hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1992. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert