Áhorfendur leyfilegir á nýjan leik?

Íslenskir stuðningsmenn geta vonandi snúið aftur í áhorfendastúkurnar á næstu …
Íslenskir stuðningsmenn geta vonandi snúið aftur í áhorfendastúkurnar á næstu dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það bendir allt til þess að áhorfendur fái að snúa aftur á kappleiki í íþróttum hér á landi í einhverjum mæli á næstu dögum.

Þetta staðfesti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík í dag.

Þórólfur sendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað á dögunum þar sem hann mælti fyrir ákveðnum tilslökunum á þeim takmörkunum sem hér ríkja vegna kórónuveirufaraldursins.

Sóttvarnalæknir vildi ekki fara nánar út í minnisblaðið á fundinum en hann var spurður hvort það kæmi til greina að leyfa áhorfendur á kappleikjum á nýjan leik eins og krafan hefur verið frá íþróttafélögunum í landinu.

„Það eru ákveðnar tillögur þar að lútandi frá mér,“ sagði Þórólfur sem vildi ekki fara frekar út í málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert